Litahlaupið á Ísafirði í ágúst

Litahlaupið The Color Run verður haldið á Ísafirði laugardaginn 14. ágúst segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum hlaupsins.

Litahlaupið er 5km löng skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem þátttakendur eru litaðir með litapúðri á hlaupaleiðinni og við endamarkið verður mikil fjölskylduskemmtun með litapúðurssprengingum. Á Ísafirði verður einnig boðið upp á 3km vegalengd fyrir þá sem kjósa að hlaupa styttri vegalengd en þó verður hlaupaleiðin hönnuð þannig að þeir sem ákveða að hlaupa 3km missa ekki af litasvæðunum í brautinni.  

“Við hlökkum til að bjóða litahlaupið velkomið í bæinn, þetta verður vafalaust fjörug skemmtun bæði fyrir bæjarbúa og gesti,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Ólíkt flestum öðrum hlaupum snýst The Color Run ekki um að koma í mark á sem skemmstum tíma heldur að njóta upplifunar hlaupsins. Þátttakendur byrja hlaupið í hvítum bol en verða í öllum regnbogans litum þegar komið er í endamarkið. Frá árinu 2015 hafa yfir 50.000 manns tekið þátt í litahlaupinu í Reykjavík og Akureyri þar sem jafnan hefur orðið uppselt á viðburðinn.

“Það er löngu kominn tími til þess að halda The Color Run á Ísafirði og hefur okkur lengi langað að koma með hlaupið vestur. Í ár sáum við loksins tækifæri til að láta slag standa og við erum hrikalega spennt. Það er einstaklega gaman að halda litahlaupið í fyrsta sinn á nýjum stað. Vonandi eru bæjarbúar jafn spenntir og við,”  segir Ragnar Már Vilhjálmsson, skipuleggjandi The Color Run á Íslandi.

Miðasala í The Color Run á Ísafirði hefst með sérstakri forsölu til mánudagsins 21. júní á tix.is þar sem miðaverð verður aðeins 4.000 kr. fyrir staka miða og 14.000 kr. fyrir fjögurra miða fjölskyldupakka.