Listaviðburðir í Dýrafirði

Nú sem stundum áður falla vötn öll til Dýrafjarðar. Sérlega hvað varðar þessa viku sem verður sérlega geggjuð á listasviðinu og mikið um að vera. Á sunnudaginn hófst ný dýrfirsk listahátíð er nefnist, List í Alviðru – Milli fjalls og fjöru – Umhverfislist í Alviðru í Dýrafirði. Hátíðin stendur út vikuna og nær hápunkti á laugardag.

Hinu megin fjarðar í Haukadal er Kómedíuleikhúsið til húsa og þar verður sannlega leikið í vikunni. Á morgun, miðvikudag kl.20.00 verður 94. sýning á hinum áhrifamikla leik Gísli á Uppsölum. Daginn eftir, fimmtudag, mætir Óttar Guðmundsson í leikhúsið í Haukadal og verður með Sturlungu geðlæknisins sem hefst einnig kl.20.00. Á laugardeginum verður fjölskylduleikritið Bakkabræður sýnt í Kómedíuleikhúsinu Haukadal kl.14.00. Sama dag kl.16.00 verður Vilborg Davíðsdóttir, skáld, á fjölum leikhússins með bókmenntadagskrá sína Undir Yggrasil. Bakkabræður verða einnig sýndir á sunnudag kl.14.00 í Kómedíuleikhúsinu Haukadal.

Baggalútur á sunnudaginn

Þá er að vinda sér inní þorpið Þingeyri. Þar hefur einstakur viðburður fangað hjarta íbúa sem og gesti sem í Dýrafjörð streyma árið um kring. Við erum að tala um tónleikviðburðinn, Í garðinum hjá Láru. Þar sem boðið er reglulega uppá ókeypis tónleika. Á helginni verða tvennir tónleikar. Á laugardag kl.20.00 mæta hinir hressu og frábæru JóiPé X Króli. Ekki eru þeir síður hressir og ofurkátir félagarnir sem stíga á stokk Í garðinum hjá Láru daginn eftir á sunnudag. Við erum að tala um hina einu og sönnu Baggalút og hefja þeir sitt tónspil kl.15.00.

Nú vita allir hvar sé best að vera þessa vikuna segir í fréttatilkynningu frá Kómedíuleikhúsinu.

DEILA