Landvernd: fáfróður sveitarstjóri á Vestfjörðum

Ársrit Landverndar fyrir starfsárið 2020-21 er komin út. Þar er gerð grein fyrir starfinu milli aðalfunda, áherslumálum samtakanna og fjárhag þeirra. Fram kemur að félagsmenn voru 5.700 og fækkaði um 200 milli ára.

Rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir ritar grein í ársritið sem hún nefnir fáfræðin dýrkeypta.

Þar fjallar hún um virkjunarhugmyndir og segir:

„Fáfræðin já. Getur það verið nokkuð annað sem ræður ferð þegar sveitarstjóri vestra segir opinberlega um umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar á þá leið að þarna sé ekkert nema grjót.“

Að svína út með fiskeldi

Í grein Steinunnar er kafli um fiskeldi.

„Hvað er svo að frétta af fiskeldi eyjarskeggja? Það er kannski hægt að halda því fram að Íslendingar eigi Ísland og megi éta það eins og þeim sýnist, enn lengra niður í svörð en orðið er – en það er ekki hægt að halda því fram að Íslendingar eigi hafið, sama hvað landhelginni líður. Að menga það, sjónmenga, og svína út með fiskeldi, það er ekki einkamál þeirra sem eyjuna byggja.

Og hvað um að setja íslenska laxinn í útrýmingarhættu? Landsins göfugustu skepnu, sem var heimilisföst áeyjunni okkar löngu á undan írskum einsetumönnum og viðurkenndum landnámsmönnum. Hér hefði mikinn lærdóm mátt draga af eyðileggjandi mistökum Norðmanna og fleiri þjóða hvað laxeldið varðar – en það var ekki til í dæminu. Ekki til í dæminu að horfa frekar á þau verðmæti sem alvörulaxinn býr til, sem slíkur, dragandi að sér heimsins moldríkasta fólk. Hagfelldustu ferðamennina – eða hvað?


Hvað er svo fleira að frétta af fiskeldismálum? Sama sagan og með álverið á Reyðarfirði. Ágóðinn fer úr landi. Í fiskeldinu eru það Norðmenn sem stjórna og hirða gróðann. Stundum spyr maður sig hvort ráðamenn, ráðherrar sem þessu stjórna, og lögin leyfa, líti á frekar á Ísland sem þriðja heims ríki en fullvalda þjóð. Ef hin manísku stórmengandi fiskeldisáform áttu að verða til þess að bjarga fjárhag Íslands, þá hefði væntanlega þurft að hugsa dæmið aðeins öðru vísi! Hér lítur reyndar út fyrir að fleira ráði ferðinni en lykilorðið FÁFRÆÐI.“

DEILA