Ísafjörður: Skipulagsstofnun skyldar kláfinn í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að uppsetning kláfs í hlíðum Eyrarfjalls skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunina má kæra til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og er kærufrestur til 9. júlí 2021.

Í fyrsta áfanga framkvæmdarinnar er fyrirhugað að setja upp kláf með byrjunarstöð í þéttbýlinu á Ísafirði neðan Eyrarfjalls, með einu millimastri á Gleiðarhjalla í hlíðum fjallsins og endastöð uppi á fjallinu. Gert er ráð fyrir uppsetningu tveggja kláfa sem munu ganga hvor á móti öðrum. Framkvæmdin felst jafnframt í gerð bílastæða og lagfæringu
aðkomuvegar að byrjunarstöðinni. Í öðrum áfanga er fyrirhugað að byggja veitingahús uppi á Eyrarfjalli í tengslum við endastöðina og í þriðja áfanga að byggja þar sjálfbærar gistieiningar eða hótel. Eyrarfjall er 730 m hátt fjall. Fram kemur að tilgangur framkvæmdanna sé að gera ferðamönnum og íbúum kleyft að njóta útsýnis frá toppi Eyrarfjalls og þróa svæðið sem útivistarog afþreyingarsvæði. Gert er ráð fyrir að framkvæmdatími verði rúmlega eitt og hálft ár
samkvæmt verkáætlun.

Fram kemur í gögnum málsins að lengd á kláfvírnum frá byrjunarstöðinni að mastrinu á Gleiðarhjalla verði um 750 metrar og frá Gleiðarhjalla upp á Eyrarfjall um 710 metrar. Gert er ráð fyrir að kláfurinn,sem verður um 3x5x3 m (bxlxh) að stærð, geti annað í kringum 500 farþegum á klst. og að í hverri ferð komist um 45 manns fyrir í kláfhúsinu. Áætlanir gera ráð fyrir að um 29.000 farþegar verði fluttir með kláfnum á ári. Gert er ráð fyrir að rekstur kláfsins verði aðallega yfir sumartímann en mögulega verður opið um helgar yfir vetrartímann ef veður leyfir. Fram kemur að í áfanga tvö sé gert ráð fyrir að við hlið endastöðvarinnar verði reist um 5 m há og 500 m² stór bygging sem hýsi veitingasal og í
þriðja áfanga verði reist um 5 m há hótelbygging, um 1000 m² að stærð og verði unnt að taka á móti 60 – 70 gestum.

Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Ísafjarðarbæjar. Framkvæmdin er einnig háð byggingarleyfi sveitarfélagsins og leyfi Vinnueftirlitsins.

Skipulagsstofnun sendi áformin til umsagnar hjá ýmsum stofnunum. Umhverfisstofnun vildi að frmkvæmdin færi í umhverfismat. Náttúrufræðistofnun vekur athygli á að víðikjarrvist og grasmóavist hafa mjög hátt og hátt
verndargildi. Þær eru auk þess á lista Bernarsamningsins ásamt urðarskriðuvist. Minjastofnun taldi fornleifaskráningu frá árinu 2002 ófullnægjandi og að fá þyrfti fornleifafræðing til að taka út svæðið þar sem byrjunarstöðin mun rísa auk vegstæðis aðkomuvegar. Isavia gerði ekki athugasemd við að kláfur verði settur upp.

Í niðurstöðu sinni segir Skipulagsstofnun að bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun telji að
helstu umhverfisáhrif verði þau að fyrirhuguð mannvirki munu breyta ásýnd Eyrarhlíðar og Eyrarfjalls séð víða að og þannig leiða til varanlegra breytinga á landslagi og því sé mat á umhverfisáhrifum rétti vettvangurinn til þess að skoða umhverfisáhrif slíkra framkvæmda.