Ísafjörður: Sævar Gestsson heiðraður á Sjómannadag

Frá athöfninni í Ísafjarðarkirkju. Frá vinstri: sr. Magnús Erlingsson, Finnbogi Sveinbjörnsson og Sævar Gestsson. Mynd: verkvest.

Að gömlum sið var heiðraður í sjómaður í Sjómannamessu á Sjómannadag, og fyrir valinu varð Sævar Gestsson.

Frá þessu er greint á vef Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Sævar er fæddur og upp alinn á Ísafirði. Sína fyrstu vinnu á sjó fékk hann aðeins 11 ára gamall og hefur verið viðloðandi sjómennsku alla tíð síðan.

Kjaramál sjómanna hafa lengi verið Sævari hugleikin, en árið 1976 var hann kosinn í Sjómannadagsráð, árið 2000 var hann svo kosinn formaður Sjómannafélags Ísfirðinga, og eftir að Sjómannafélagið rann inn í Verk Vest hefur Sævar verið formaður Sjómannadeildar félagsins. Framlag Sævars til kjarabaráttu og öryggismála sjómanna er ómetanlegt og enn er engan bilbug að finna á honum. Sævar hefur setið í framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands um áratuga skeið og er alltaf fyrstur á vettvang þegar verkefni tengd sjómönnum koma inn á borð Verk Vest og víkur sér aldrei undan.

Sem þakklætisvott afhenti Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verk Vest, Sævari fallegan grip sem sjómannsdóttirin Dýrfinna Torfadóttir bjó til í tilefni þessa.

DEILA