Ísafjörður: mikilla endurbóta þörf á Safnahúsinu

Mynd úr ástandsskýrslunni.

Fram kemur í ástandsskýrsla Guðfinnu Hreiðarsdóttur, forstöðumanns skjala- og ljósmyndasafns í Safnahúsi, frá maí 2021 að mikil þörf er á endurbótum á Safnahúsinu á Ísafirði. Húsið sem reist var sem sjúkrahús 1925 og vígt 17. júní var sama dag árið 2003 var húsið vígt sem safnahús við hátíðlega athöfn eftir miklar endurbætur.

Í ástandsskýrslu Guðfinnu segir:

„Á þeim 18 árum sem liðin eru frá vígslu hússins er kominn tími á ýmislegt sem kalla má eðlilegt viðhald, flest smávægileg og auðvelt að lagfæra en jafnframt ljóst að fara þarf í kostnaðarsama viðgerð og endurbætur á kjallara hússins. Hefur þar verið viðvarandi raki í mörg ár sem m.a. hefur valdið skemmdum á bæði inn- og útveggjum.“

Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar ræddi ástandsskýrsluna á fundi sínum í síðustu viku og bókað var að Menningarmálanefnd telji mikilvægt að hugað verði að endurbótum á Safnahúsinu, sérstaklega myglu- og rakavandamálum í kjallara.

Menningarmálanefnd lagði til við bæjarráð að samþykkt yrði að „áætlað verði fyrir ríflegum endurbótum á fjárhagsáætlun næsta árs, sérstaklega varðandi kjallara innanhúss, raka við norðurgafl, glugga að utanverðu og gler í gluggum. Menningarmálanefnd leggur áherslu á að endurbótum verði lokið að fullu fyrir 100 ára afmæli hússins 17. júní 2025.“

Bæjarráðið tók málið fyrir á fundi sínum í gær og bókað var að bæjarráð „tekur undir bókun menningarmálanefndar, felur bæjarstjóra að gera verk- og kostnaðaráætlun vegna viðhalds hússins og leggja fyrir bæjarráð.“

DEILA