Ísafjörður: Í listinn gerir ágreining um kaup á Suðurtanga 2

Frá aðstöðu Sæfara við Suðurtanga

Eftir tveggja ára meðferð innan bæjarkerfisins leggur bæjarráð Ísafjarðarbæjar til að tekið verði til afgreiðslu kaup bæjarins á eignarhluta Sjósportmiðstöðvarinnar að Suðurtanga 2, Ísafirði. Um er að ræða 47,2% í fasteigninni. Fyrir á bærinn 11%.

Kaupverðið er 27,6 m.kr. og greitt í tvennu lagi 1.okt 2021 og 1. apríl 2022. Fram kemur i minnisblaði bæjarritara að

ekki var gert ráð fyrir kaupum hússins í fjárhagsáætlun ársins 2021. Verði kaup samþykkt er nauðsynlegt að fram komi upplýsingar um hvaðan fjármagn skuli koma, svo hægt sé að útbúa viðauka segir í minnisblaðinu.

Upphaflega voru ákveðnar hugmyndir uppi um notkun húsnæðisins í tengslum við Byggðasafn Vestfjarða og bátageymslu en horfið hefur verið frá því.

Fyrir liggja drög að samningi Ísafjarðarbæjar við Sæfara, félag áhugamanna um sjósport á Ísafirði, um afnot Sæfara af húsnæðinu en bæjarráðið frestaði afgreiðslu þess samnings vegna andmæla Í listans, sem lét bóka:

„Fulltrúar Í-listans í íþrótta- og tómstundanefnd leggjast alfarið gegn kaupum Ísafjarðarbæjar á húsi Sæfara. En ef að kaupunum kæmi óskum við eftir að afnotasamningnum verði aftur vísað í íþrótta- og tómstundanefnd.“

DEILA