Ísafjarðarbær hafnar því að þiggja hús á Flateyri að gjöf

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á mánudaginn að afþakka húsnæði Minjasjóðs Önundarfjarðar, Hafnarstræti 3-5 á Flateyri, sem sveitarfélaginu var boðið að gjöf. Húsið var reist árið 1898 af Bergi Rósinkranssyni kaupmanni. Jens Eyjólfsson keypti húsið árið 1914 og var það í eigu sömu fjölskyldu til ársins 2003 þegar Minjasjóður Önundarfjarðar festi kaup á því. Verslun hefur verið rekin í húsinu nánast óslitið frá árinu 1906 en lengst af undir heitinu Bræðurnir Eyjólfsson.

Í greinargerð Jónu Símoníu Bjarnadóttur forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða kemur fram að samkvæmt nýlegu mati er heildarkostnaður við lagfæringar á húsinu um 33 milljónir króna. Jóna Símonía segir í greinargerðinni að hægt væri að fá styrk frá húsafriðunarnefnd til þeirra framkvæmda á móti framlagi eiganda sem gróft áætlað væri ekki undir 20 milljónum.

Þar segir um ástand hússins:

„Ástand hússins er bágborið, það er hvorki vind- né regnhelt og nauðsynlegt er að gera á því miklar endurbætur. Þótt endurbætur hafi farið fram á þaki (1998) er talið nauðsynlegt að gera enn frekari endurbætur á því. Ráðist hefur verið í bráðaframkvæmdir til að verja húsið og forða því frekari skemmdum í vetur með því að skipta um og bæta á plötum á þaki en nauðsynlegt er að huga að því að skipta út plötum á þaki og klæðningu á útveggjum þar sem þess gerist þörf. Gluggar eru allir illa farnir og nokkrir hvorki vatns- né vindheldir. Nauðsynlegt er að endurnýja lagnakerfi hússins (vatn
frá 1908 og rafmagn frá 1923) að öllu leyti eða hluta.“

Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni að nefndin telji að á þessum tímapunkti hafi sveitarfélagið ekki fjárhagslegt bolmagn til að veita húsi Minjasafns Önundarfjarðar viðtöku. Nefndin telur mikilvægt að leggja fremur áherslu á að veita fjármagni til uppbyggingar á þeim safnkosti sem sveitarfélagið á nú þegar.

Bæjarráðið bókaði að það þakki boð Minjasjóðs Önundarfjarðar en tekur undir bókun menningarmálanefndar, um að sveitarfélagið sjái sér ekki fært að veita húsinu viðtöku.