Hugmyndir eru uppi um að setja upp vindmyllubúgarð í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið Sjótækni ehf er í samstarfi við erlent fyrirtæki og hafa þau haft í athugun hvort hagkvæmt geti verið að setja upp vindmyllubúgarð í Ísafjarðardjúpi.
Hugmyndin byggir á því að setja út nokkrar stórar vindmyllur á tveimur svæðum, festar í botn, sem tengdar væru saman um sæstreng sem færi svo í land á völdum stað. Uppsett afl gæti verið um 40 til 50 megawött á hvorum stað en nýting á vindorku er sveiflukennd en þó er betri nýting á vindmyllum úti á sjó sem fjærst landi. Vindmyllurnar yrðu mjög háar, á annað hundrað metrar að hæð.
Kjartan Hauksson, framkvæmdastjóri Sjótækni sagði í samtali við Bæjarins besta að þess yrði gætt að trufla ekki veiðar Það eru tvö svæði sem eru til skoðunar. Ytra svæðið þar sem mælingar fara fram eru á Vatnshlíðargrunni sem er um miðja vegu milli Arnarness og Ögurness en innra svæðið er á grunni milli Brestskers og Torflágargrunns.
Á þessu stigi er málið á hugmyndastigi og fyrsta skrefið er að fara í rannsóknir á aðstæðum. Sótt hefur verið um leyfi Samgöngustofu fyrir því að setja út svonefnda LIDAR bauju, sem mælir vindhraða með laser lóðrétt upp frá baujunni og mælir einnig ölduhæð og tíðni. Niðurstöður úr rannsóknunum gætu legið fyrir eftir ár eða svo.
Ef mælingar verða jákvæðar þarf möguleg framkvæmd að fara í umhverfismat áður en lengra yrði haldið.