Í maí reru 15 bátar á Tálknafirði til strandveiða og gengu veiðar mjög vel að sögn hafnarvarðar. Flestir náðu tólf dögum í mánuðinum og komu hvern dag með þann skammt sem veiða má. Búast má við því að bátum muni fjölga töluvert í júní.
Algengt var að bátarnir væru að koma inn til löndunar á milli 9 og 10 á morgnana og var fiskurinn yfirleitt á milli 3 og 4 kg að stærð.
Sé horft yfir landið allt er ekki annað að sjá en strandveiðar hafi gengið vel í maí.
Alls 135 bátar náðu að nýta alla daga sem í boði voru og 50 bátum vantaði aðeins einn dag upp á. Til samanburðar voru aðeins 31 bátur sem tókst að ná fullum fjölda í maí á síðasta ári, en eins og menn muna voru brælur þá afar tíðar.