Í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um tillögu að friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarð á Vestfjörðum kemur fram að Stjórn Fjórðungssambandsins telur að efni tillögunnar hafi ekki fengið nægjanlega umfjöllun í samfélögum á Vestfjörðum og gerir að tillögu sinni að frestað verði endanlegri staðfestingu friðlýsingar þjóðgarðs á Vestfjörðum. Tími í júní verði nýttur til aukinnar kynningar. Komi í ljós að málið þurfi meiri undirbúning til að ná endanlegri niðurstöðu mætti hugsanlega setja fram viljayfirlýsingu sveitarfélaga og ráðuneytis og stofnana þess. Verði niðurstaðan að loknu umsagnarferli, að halda áfram með verkefnið þá verði ný dagsetning ákveðin í framhaldinu t.d. í byrjun september n.k..
Í rökstuðningi fyrir tillögu sinni um frestur segir stjórn Fjórðungsambandsins að „tveir fundir með fjarfundaformi þar sem mæting er óljós og þingmenn og forstöðumenn stofnana höfðu sig mest í frammi, er ekki ásættanleg. Tilkynning um undirbúning þjóðgarðs sem póstlögð var í hús í Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð, hafði eingöngu það gildi að benda íbúum hvar upplýsingar væru til staðar um verkefnið og ekki eru kynnt á heimasíðu Umhverfisstofnunar hvaða viðbrögð hafa borist til þessa.“
Sveitarfélögin gefi út framkvæmdaleyfi
Í umsögninni er lögð áhersla á að sveitarfélög fara með skipulagsvald innan þjóðgarðsins og gefa út framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð og eða gerð jarðgangna. Minnt er á tillögur um tvenn jarðgöng á Dynjandisheiði sem geti komið til síðar þótt þau séu ekki á dagskrá nú. Göngin eru áætluð með munna í drögum Geirþjófsfjarðar og í Dynjandisvog.
Ekki er ásættanlegt að í 10. og 13. grein friðlýsingarskilmálanna séu ákvæði sem geta lagt bann á framkvæmdir í Dynjandisvogi og þannig komið í veg fyrir þá framkvæmd, eða gera þann valkost ófýsilegan í forgangsröðun jarðgangaframkvæmd í landinu segir í umsögn Fjórðungssambandsins.
„Sveitarfélög hafi hér síðasta orðið varðandi samgönguframkvæmdir og því er lagt til að bætt verði við ákvæði í 13. grein friðlýsingarskilmálanna 5. málsgrein „innviðauppbygging skal fara eftir skipulagi“. Breyting feli í sér að þetta ákvæði hafi forgang á önnur ákvæði greinarinnar. Hið sama gildi gagnvart bráðabrigðaákvæði sömu auglýsingar er varðar vegaframkvæmdir segir í umsögninni.
Með þessari breytingartillögu yrði endanlegt leyfisvald áfram í höndum sveitarfélaganna og færist ekki til Umhverfisstofnunar og Umhverfisráðherra.
Vilja halda inn virkjunarkostum
Fjórðungssambandið minnir á að í áfanga Rammaáætlunar eru til skoðunar tveir virkjanakostir með vatnasvæði í jaðri þjóðgarðsins, Tröllárvirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun. Þetta þurfi að hafa í huga þar sem aðeins um 40% af raforkuþörfinni á Vestfjörðum er framleidd á svæðinu, annað er flutt að eftir raforkulínum. Vaxandi fiskeldi og kalþörunganám og vinnsla kallar á aukningu í raforkuþörf.
Til að ná því þarf „að byggja upp flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að afhendingaröryggi og aflgeta sé tryggð svo mæta megi þörfum samfélagsins á hverjum tíma, óháð búsetu. Á ársfundi Orkubús Vestfjarða þann 14. maí s.l. tilkynnti iðnaðarráðherra um skipan starfshóps sem vinni að þessu máli fyrir Vestfirði. Vænta má að framkvæmdir við flutningskerfi raforku innan Þjóðgarðs á Vestfjörðum hefjist á allra næstu árum og er þá ítrekuð krafa um að skilmálar auglýsingar um þjóðgarð hindri ekki þá uppbyggingu.“
Að lokum segir í umsögninni að framtíðarsýn um Vestfirðir sem framúrskarandi svæði náist ekki nema með því að innviðir séu samkeppnishæfir.