Fasteignamat síðustu 7 ára hækkaði mest á Patreksfirði

Fram kemur í skýrslu Þjóðskrár Íslands sem unnin var fyrir Byggðastofnun um þróun fasteignamats svonefnds viðmiðunarhúss að á árunum 2014 til 2021 hækkaði matið mest á Patreksfirði þegar litið er til Vestfjarða. Þar varð hækkunin 68%.

Meðaltalshækkun 41%

Á átta matssvæðum á Vesturlandi og Vestfjörðum hækkaði fasteignamat viðmiðunareignar að meðaltali um 41% milli 2014 og 2021, mest á Akranesi 84% og á Patreksfirði 68%. Á Ísafirði nýrri byggð varð hækkunin 52% og um 56% í Bolungavík. Á Hólmavík hækkaði fasteignamat ekkert á tímabilinu. Ekki er að finna upplýsingar um uppsafnaða breytingu í öðrum byggðarlögum á Vestfjörðum.

Meiri meðaltalshækkun í flestum öðrum landshlutum

Meðaltalshækkun fasteignamats viðmiðunarhússins varð svipuð á Austurlandi og hún var á Vesturlandi og Vestfjörðum eða um 40% frá 2014 til 2021. Annars staðar varð hækkun frá 50 – 60%. Mest varð hún á Suðurlandi og Suðurnesjum 60%, á höfuðborgarsvæðinu varð hækkunin 59% og loks 53% á Norðurlandi.

 Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð.

DEILA