Lesendur þurfa svo sannarlega ekki að vera glöggir til að sjá að dýrasta skútan er mætt aftur á Ísafjörð. Vakið hefur athygli að starfsmenn skútunnar hafa haft samband við fyrirtæki í bænum til að óska eftir opnun utan hefðbundins opnunartíma. Eitthvað sem við erum nú ekki vön hérna.
En svo virðist verða að milljarðamæringurinn hafi fengið góða þjónustu í bænum, í það minnsta kemur hann aftur.
Engu var til sparað við gerð skútunnar. Hún er í eigu rússneska milljarðamæringsins Andrey Melnichenko og er skráð á Bermúdaeyjum. Hún er talin stærsta seglskúta í einkaeigu sem knúin er jafnframt með mótor.
Snekkjan var afhent eiganda sínum árið 2017. Hún var smíðuð af þýsku skipasmíðastöðinni Kobiskrug í Kiel. Ytra borð hennar er hannað af Doelker + Voges, franska arkitektinum Jacques Garcoin og hinum fræga franska hönnuði Philippe Starck, sem einnig hannaði fleyið að innan.
Myndina tók blaðamaður Bæjarins besta á siglingu og sést greinilega stærðin ef miðað er við þyrluna á dekkinu.