Bolungavík: 12-14 leiguíbúðir tilbúnar um næstu áramót

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) úthlutaði í vikunni ríflega 1,9 milljarði króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á 266 hagkvæmum leiguíbúðum víðsvegar um landið. Leiguíbúðirnar dreifast á níu sveitarfélög en meginþorrinn er á höfuðborgarsvæðinu. Fjármununum er ætlað að styðja við framboð hagkvæmra leiguíbúða fyrir tekjulága og verða nýttir til byggingar á 144 íbúðum og kaupa á 138 nýjum og eldri íbúðum.

Bolungavíkurkaupstaður var eina sveitarfélagið á Vestfjörðum sem fékk úhlutað stofnframlagi í þessari úthlutun. Skýlir leigufélag f.h. óstofnaðrar hses. fékk 67,5 m.kr stofnframlag til þess að gera 12 – 14 leiguíbúðir í Vitastíg 1 -3. Óstofnaða húsnæðisamvinnufélagið verður eigandi að leiguíbúðunum og Skýlir ehf er framkvæmdaaðili. Framkvæmdakostnaður er um 375 m.kr. Framlag ríkisins er 18% af kostnaðinum og sveitarfélagið setur 12% af kostnaði sem framlag af sinni hálfu. Hlutur Bolungavíkur verður greiddur með því að leggja eignarhlut kaupstaðarins í húseigninni Vitastíg 1-3 inn í hses.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að úthlutun HMS sýndi trú þess á samfélaginu í Bolungavík. Hann benti á að þetta væri stærsta fasteignaverkefni í Bolungavík í 30 ár. Vonast væri til þess að framkvæmdum við breytingar á húsnæðinu yrði lokið um næstu áramót og íbúðirnar tilbúnar til afhendingar.