Bæjarstjóri Vesturbyggðar: stóð ekki til að leyfa virkjun stærri en 10 MW í Vatnsfirði

Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar segir að á grundvelli núgildandi friðlýsingarskilmála friðlandsins í Vatnsfirði séu virkjunarkostir sem hafa uppsett rafafl 10MW eða meira óheimilir.

„Virkjun að þeirri stærðargráðu er því óheimil hvort sem um verður að ræða friðland eða þjóðgarð. Við undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðs kom aldrei til greina að opna núverandi friðlýsingarskilmála friðlandsins í Vatnsfirði sem hafa verið í gildi síðan 1975 og rýmka þá til að unnt verði að virkja innan marka friðlandsins.“

Hún segir að bæjarstjórn sé sammála um að mikilvægt sé að tryggja næga raforku á Vestfjörðum til að mæta aukinni atvinnuuppbyggingu og til að tryggja orkuskipti sem og að aukinn þungi verði settur í þá virkjunarkosti sem m.a. hafa verið til umfjöllunar í rammaáætlun.

Aðspurð að því hvort það hafi verið af hálfu bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem ekki kom til greina að opna fyrir virkjun innan friðlandsins svaraði Rebekka Hilmarsdóttir eftirfarandi:

„Markmið með stofnun þjóðgarðsins eru að sameina þegar friðlýst svæði og taka undir þjóðgarðin svæði sem eru þegar í eigu ríkisins og því stóð ekki til við undirbúninginn að rýmka þá skilmála sem þegar eru í gildi fyrir einstök svæði, eins og friðlandið í Vatnsfirði þar sem 10 MW virkjun eða stærri hefur verið óheimil um árabil.“