Vesturbyggð: stefnt að tvöföldun orlofsbyggðarinnar í Flókalundi

Stjórn orlofsbyggðarinnar Flókalundi í Vatnsfirði stefnir að því að að fjölga orlofshúsum á svæðinu um u.þ.b. 15 hús, ásamt því að gera ráð fyrir stækkun þjónustu- og sundlaugarhúsum.

Fyrir eru  fimmtán hús, þrettán þeirra eru orlofshús, eitt þjónustuhús fyrir sundlaug og loks þjónustuhús fyrir starfsemi orlofsbyggðarinnar.

Deiliskipulag fyrir stækkunina hefur verið lagt fyrir Vesturbyggð og skipulags- og umhverfisráð sveitarfélagsins hefur samþykkt það og er deiliskipulagið nú í auglýsingu.

Skipulagslýsingin liggur frammi á skrifstofu Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, frá og með 12. maí til 12. júní 2021 og er einnig til sýnis á heimasíðu Vesturbyggðar.

Ekki liggur fyrir deiliskipulag á svæðinu, en stuðst hefur verið við óstaðfest skipulag frá árinu 1975.

Heildarstærð skipulagssvæðisins er 15 ha. Skipulagssvæðið er á þegar röskuðu landi. Skipulagssvæðið er í eigu ríkisins.

Gert er ráð fyrir að skipulagstillagan verði að fullu afgreidd og staðfest fyrir lok ársins.