Vesturbyggð: mótmælir fullyrðingu um leynd

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar mótmælir því harðlega að verið sé að halda upplysingum um fundarhöld við forsvarsmenn Arctic Fish og Arnarlax þann 17. maí undir borðum, eins og fram kom í fréttaskýringu í morgun á Bæjarins besta. Hún segir að vegna mannlegra mistaka hafi málið ekki farið inn á formlega dagskrá bæjarstjórnarfundar 26. maí en það hafi samt verið tekið fyrir á þeim fundi bæjarstjórnar. Rebekka krefst þess að leiðrétt verði fullyrðing um „að verið sé að hafa málið undir borðum.“

Aths ritstj.

Þegar bæjarstjórn kemur saman er það formleg athöfn. Það ber að boða fundinn opinberlega með dagskrá, skrá fundargerð og birta hana. Í svari bæjarstjóra til Bæjarins besta við fyrirspurn um það hvort forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna hafi kynnt fyrir Vesturbyggð hugmyndir um mögulega uppbyggingu sláturhúss segir orðrétt:

„Já, forsvarsmenn Arnarlax og Arctic Fish hafa kynnt bæjarstjórn Vesturbyggðar hugmyndir um mögulega uppbyggingu sláturhúss á Patreksfirði.“

Þá var spurt hvort fundurinn hafi verið óformlegur og svar við því var :

„Kynning fyrirtækjanna fór fram 17. maí sl. með bæjarstjórn Vesturbyggðar, en fundurinn var ekki hluti af formlegum fundum bæjarstjórnar.“

Í báðum svörunum kemur skýrt fram að það var bæjarstjórn Vesturbyggðar sem kölluð var til kynningarinnar.

Í fundargerð bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 26. maí segir um málið, sem tekið var inn á dagskrá með afbrigðum:

„Lögð fram til kynningar gögn frá kynningarfundi sem haldinn var 17. maí sl. þar sem Björn Hembre, forstjóri Arnarlax og Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish kynntu mögulega uppbyggingu sláturhúss á Patreksfirði.“

Þar kemur ekki fram að það var bæjarstjórnin sem var á kynningarfundinum, sbr fyrrgreind svör bæjarstjóra.

Um störf kjörinna fulltrúa gilda ákveðin lög. Ákvæðum laganna er ætlað að tryggja að íbúar fái upplýsingar um það sem fram fer. Sveitarstjórn hefur ekkert val um að hittast á laun. Sé málið kynnt fyrir sveitarstjórn ber að skrá fundinn og það sem fram fór. Það er heldur ekki hægt að skrá sveitarstjórnarfund eftir á sem dagskrárlið á næsta sveitarstjórnarfundi.

Sams konar erindi til Ísafjarðarbæjar var tekið fyrir með formlegum hætti á fundi bæjarráðs og skráð þar skilmerkilega. Þar með vita íbúar sveitarfélagsins af erindinu og hvert framhaldið verður.

Það er kjarni málsins.

-k