Vestri fékk skell á Seltjarnarnesi

Heiðar Þorleifsson, þjálfari Vestra.

Knattspyrnulið Vestra fékk vondan skell á laugardaginn þegar liðið tapaði 5:0 fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi í Lengjudeildinni. Leiknum var í raun lokið eftir hálftímaleik þegar staðan var orðin 4:0.

Heiðar Þorleifsson, þjálfari liðsins var vonsvikinn með úrslitin í viðtali við íþróttavefinn fotbolti.net og sagði að leikurinn hefði verið skelfilegur af hálfu Vestra og bað stuðningsmenn Vestra afsökunar á frammistöðunni.

Þetta var þriðju leikur liðsins í deildinni og hafði Vestri farið vel af stað og unnið tvo fyrstu leikina. Þrátt fyrir tapið er liðið í 4. sæti deildarinnar með 6 stig.

Næsti leikur lisins verður á Ísafirði á föstudaginn og verður leikið við Grindavík, sem hefur innið einn leik og tapað tveimur.

Það verður jafnframt fyrsti leikur Vestra á heimavelli á þessu leiktímabili. Sex síðustu leikir hafa allir verið spilaðir á útivelli.

DEILA