Verðmæti sjávarútvegs og fiskeldis gæti aukist um 2 milljarða kr á mánuði fram til ársins 2030

Sveinn Agnarsson og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra kynnti í gær nýja skýrslu um tækifærin framundan í sjávarútvegi að meðtöldu fiskeldi. Fram kemur að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina, sem var 332 milljarðar króna árið 2019, aukist í um 440 milljarða kr. árið 2025 og í 615 milljarða kr. árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019. Það jafngildir því að virðisaukingin verður liðlega 2 milljarðar króna í hverjum mánuði fram til 2030.

Fram kemur að á tímabilinu 2009 til 2019 jókst aflaverðmæti um 45 milljarða kr. og útflutningsverðmæti um 97 milljarða kr. á föstu gengi. Samkvæmt því jókst útflutningsverðmætið um 45% á þessum áratug. Ríflega helming aukinna útflutningsverðmæta má rekja til aukinnar verðmætasköpunar í vinnslu, en tæplega helming til hærra aflaverðmætis.

Ritstjóri skýrslunnar var Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Aðrir sem unnu að skýrslunni voru Sigurjón Arason, prófessor, dr. Hörður G. Kristinsson og dr Gunnar Haraldsson.

Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um núverandi stöðu sjávarútvegs og fiskeldis og áskoranir og tækifæri til framtíðar.

Fiskeldinu eru gerð góð skil í skýrslunni og gera skýrsluhöfundar ráð fyrir því í spá sinni um þróunina til 2030 að fiskeldið muni skila ríflega þriðjungnum af verðmætisaukningunni.

Áætlað er að útflutningsverðmætið vaxi úr 25 milljörðum sem það var 2019 í 125 milljarða króna árið 2030 og að framleiðslan verði þá 120 þúsund tonn af eldisfiski, langmest laxi.

DEILA