ÚUA: fellur úr gildi 10.000 tonna eldisleyfi í Reyðarfirði

Reyðarfjörður. Mynd: fjardarbyggd.is

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi í dag úr gildi rekstrarleyfi Matvælastofnunar dags 6. okt. 2020 til Laxa eignarhaldsfélags til 10.000 tonna kynslóðaskipts laxeldis í Reyðarfirði.

Nefndin ógilti leyfið af þeim sökum að Matvælastofnun var ekki heimilt að setja skilyrði í hið kærða rekstrarleyfi þess efnis að lágmarksþyngd seiða skuli vera 56 g, enda hafi mat á umhverfisáhrifum ekki farið fram á því að notuð verði seiði að þyngd 56-199 g.  Skipulagsstofnun hafði í sínu áliti á skýrslu um umhverfismat m.a. til að sett yrði skilyrði í rekstrarleyfi um að seiði yrðu að lágmarki 200 g að þyngd við útsetningu, en Matvælastofnun vék frá því og setti skilyrði í hið kærða rekstraleyfi að þau skyldu að lágmarki vera 56 g.

Kærendur voru Landssamband veiðifélaga og Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár.

Úrskurðarnefndin vísaði frá kröfum Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélags Selár og Veiðifélags Vesturdalsár með þeim rökum að Vopnafjörður sé um 150 km fjarlægð frá Reyðarfirði og „þótt ekki sé hægt að útiloka að lax úr fyrirhuguðu eldi gangi í ár í Vopnafirði og hafi einhver áhrif á hagsmuni þeirra kærenda sem á því byggja verður ekki talið að þeir hagsmunir séu verulegir með hliðsjón af fjarlægð ánna frá fiskeldi leyfishafa, þeim takmarkaða fjölda laxa sem sennilegt verður að telja að í þær geti gengið og þeim veiku áhrifum sem ætla má að af því hljótist“.

Samkvæmt þessu er næsta skref að Matvælastofnun auglýsi drög að nýju rekstrarleyfi þar sem bætt er úr þeim annmörkum sem úrskurðarnefndin setur hornin í. 

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa sagði í samtali við Bæjarins besta að farið yrði í að afla nýs leyfis og vinna það í samráði við Matvælastofnun.

Sjávarútvegsráðherra hefur heimild í lögum um fiskeldi til þess að gefa út leyfi til bráðabirgða.

DEILA