Fram kemur í aðsendri grein Elíasar Jónatanssonar, Orkubússtjóra nokkur gagnrýni á drög að friðlýsingarskilmálum fyrir væntanlegan þjóðgarð á Vestfjörðum. Elías vekur athygli á því að samkvæmt skilmálunum er engin orkunýting leyfð innan þjóðgarðsins auk þess sem óbreytt staða flutningskerfis raforku er fest í sessi.
Í friðlýsingartillögunni er viðhald og þjónusta við núverandi raflínur heimiluð. Það eru hins vegar línur byggðar fyrir 1980 og þarfnast endurnýjunar sem vandséð er að verði heimiluð samkvæmt tillögunni til friðlýsingar.
„Það er mat Orkubús Vestfjarða að ókleyft verði að tvöfalda flutningslínurnar innan friðlýsingarsvæðisins gangi áformin eftir óbreytt. Þá verði einnig ókleyft að byggja upp öflugri línur í stað þeirra rúmlega 40 ára gömlu flutningslína sem fyrir eru þar sem friðlýsingarskilmálarnir leyfa slíkt ekki. Útilokað verður að vera með tvöfalda tengingu við afhendingarstað Landsnets í Mjólká, en afhendingarstaðurinn hefur gjarnan verið nefndur hjartað í raforkukerfi Vestfjarða.“ segir Orkubússtjóri í greininni.
Elías Jónatansson vekur athygli á því að athugasemdir við friðlýsingartillöguna hafa ekki verið birtar og því hafi almenningur ekki getað kynnt sér þær. Athugasemdaferlinu lýkur 26. maí.
Athugasemdir Orkubúsins eru dagettar 31.12. 2020. Þar segir að mikilvægustu flutningslínur Orkubúsins liggi innan væntanlegs þjóðgarðs og að línurnar eru 40 ára gamlar. Þær þurfi að vera sterkbyggðari til þess að standast veðuráhlaupin. Úrbætur þurfi á línunum og það kalli á breytingar sem friðunarskilmálarnir taki ekki tillit til. Þá sé stefnt að orkuskiptum í samgöngum og því verði ekki náð án þess að virkja. Á umræddu þjóðgarðssvæði eru vænlegir virkjunarkostir sem óráðlegt væri að útiloka.
Í umsögninni leggur Orkubúið til að áfangaskipta friðlýsingunni innan svæðisins.
Stefnt er að því, að ósk heimamanna að sögn Umhverfisráðherra, að þjóðgarðurinn verði stofnaður þann 17. júní næstkomandi.
Fulltrúar sveitarfélaganna í samstarfsnefnd um stofnun þjóðgarðsins eru Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Hlekkur á grein Eliasar https://www.bb.is/2021/05/fridlysingarskilmalar-thjodgards-thorf-a-upplystri-umraedu/