Þjóðgarður á Vestfjörðum: friðunarskilmálar koma ekki í veg fyrir virkjun innan svæðisins

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og nefndarmaður í samstarfshóp um væntalegan þjóðgarð á Vestfjörðum segir að „skilmálar Þjóðgarðsins heimila bæði endurnýjun á raflögnum og einnig lagningu nýrra lagna í framtíðinni komi til þess. Auk þess sem skilmálarnir koma ekki í veg fyrir mögulega virkjanaáform innan svæðisins en engin slík áform liggja fyrir í dag. Komi til þess í framtíðinni að þannig áform líta dagsins ljós þá fara þau einfaldlega í það ferli sem slík áform fara í. Sama er að segja með nýja vegi eða jarðgöng á svæðinu, skilmálarnir koma alls ekki í veg fyrir neitt slíkt enda er einn af tilganginum með stofnun þjóðgarðs að auðvelda aðgengi fólks að honum.“

Birgir segir að athugasemdir Orkubús Vestfjarða hafi verið teknar fyrir í starfshópnum nú í maí og að tekið hafi verið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram.

Birgir sagði í við Bæjarins besta í síðustu viku að hann hefði ekki séð athugasemdir Orkubúsins. Starfsmaður starfshópsins staðfestir að allar umsagnir hafi verið sendar á nefndarmenn. Um það segir Birgir: „Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að erindið var tekið fyrir í starfshópnum núna í maí og tekið var tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram.“

Vill sjá yfirlýsingu stjórnvalda um uppbyggingu og fjármögnun

Aðspurður um það hvort stefnt væri að því að stofna þjóðgarðinn formlega 17. júní næstkomandi svaraði Birgir :

„Það liggur ekki ennþá fyrir hvort formleg stofnun verði 17.júní. Umsagnarferli friðlýsingar skilmálanna lýkur í dag [miðvikudag], í framhaldinu verður farið yfir athugasemdir. Einnig viljum við sjá yfirlýsingu frá stjórnvöldum varðandi uppbyggingaráform í tengslum við Þjóðgarðinn og fjármögnun. Þau áform liggja vonandi fyrir á næstu dögum og þá sjáum við hver staðan er og einnig þarf að fara yfir innkomnar athugasemdir. Þannig að það verður að koma í ljós hvort þetta næst fyrir 17. júní.“

DEILA