Þingeyri: Blábankinn fær þriggja ára styrk

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að endurnýja þjónustusamning við Blábankann á Þingeyri og fstyrkja reksturinn um 3,75 m.kr. árlega næstu þrjú árin, 2022-2024.

Blábankinn er sjálfseignarstofnun sem sett var á laggirnar með samstarfi einkaaðila, ríkis og Ísafjarðarbæjar árið 2017 til að styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Þingeyri.

Í erindi stjórnar Blábankans til bæjarráðs segir að um sé að ræða tilraunaverkefni sem hafi gengið vel, mörg ný verkefni hafa orðið til, aðstæður til atvinnu hafa breyst og Blábankinn sé orðin fyrirmynd fyrir samfélagsmiðstöðvar í fámennum byggðum víða um Vestfirði og um allt land.

Áætlaður árlegur rekstrarkostnaður eru 15 m.kr. og er lagt upp með að sveitafélagið og ríkið fjármagni helminginn af rekstrarfé Blábankans á móti einkaaðilum. Þannig myndi Ísafjarðarbær leggja rekstrinum til árlega 3,75 m.kr. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti 3,75 m.kr og einkaaðilar tryggja allt að 7 m.kr.

Þá segir:

„Blábankinn er nú þegar notaður sem fyrirmynd í fjölmörgum smáum stöðum á Vestfjörðum. Þetta er mikilvægt frumkvæðisverkefni um byggðaþróun og samstarf ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Við viljum halda áfram að
þróa Blábankann sem þessa fyrirmynd. Það mun skapa verðmæta þekkingu fyrir sveitafélagið í þeirri umbyltingu í byggðaþróun sem mun þurfa að eiga sér stað á næstu árum.“

Stjórnarformaður Blábankans er Ketill Berg Magnússon.

DEILA