Það er víst nóg til

Áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur þessa lands fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til” legg ég til þessi viðbrögð í staðinn: Að innleiða skyldu á fyrirtæki um að greina frá launabili innan fyrirtækja og setja sér stefnu um ásættanlegt launabil. Enn fremur að lækka ofurlaun og taka á bónusum og ofurarðgreiðslum.  Að sama skapi þarf fjármálaráðherra að svara því af hverju verið er að lækka gjöld á þá sem eru aflögufærir (fjármagnstekjuskatt, hlutabréfakaupendur, atvinnurekendur í gegnum tryggingagjald hvort sem þeir þurfa aðstoð eða ekki o.s.frv.) á meðan ríkissjóður er rekinn með tapi.

 Veiking skattrannsókna er svo kapítuli út af fyrir sig þegar skattaundanskot eru metin af fjármálaráðuneytinu á 3-7% af landsframleiðslu. Það má líka vinda ofan af markaðsvæðingu húsnæðismarkaðarins þannig að fólk hafi í raun möguleika á öryggi í sínu daglega lífi óháð tekjum. Krafan um mannsæmandi laun er krafan um öryggi, sanngirni og lífsgæði. Til hvers eru ráðamenn ef ekki til að skilja þetta grundvallaratriði í lífi almennings? Ef ráðamenn og atvinnurekendur vilja fleiri góð ráð er af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há. 

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana. Systursamtök ASÍ í Palestínu er PGFTU og góður félagi í þeim samtökum Dr. Ashraf Al-A’war var handtekinn af Ísraelsher þann 8. maí síðastliðinn, yfirheyrður um stéttafélagaþátttöku sína og hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum eða verkalýðsmálum í einn mánuð. Þetta er dæmi um hið hversdagslega ofbeldi sem Palestínumenn mega sæta til viðbótar við hreinar loftárásir, landnám, aðskilnaðarstefnu, fangelsanir, morð og brottflutninga. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin fordæmir þetta og það hef ég einnig gert við sendiherra Ísraela.  

Góða helgi,

Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA