Teigsskógur: eignarnám má taka eitt ár án þess að tefja framkvæmdir

Þessi mynd var tekin 20. apríl þegar fyrstu tækin voru komin í Þorskafjörðinn. Mynd: Björn Davíðsson.

Vegagerðin hefur ekki óskað eftir heimild til eignarnáms fyrir vegagerð um jörðina Gröf í Þorskafirði og leitar enn samninga við landeigendur. Í eignarnámsferli eru innbyggðir kærufrestir og andmælaréttur. Eignarnámsferlið má taka allt að einu ári áður en það fer að tefja framkvæmdir þannig að það hafi áhrif á verklok.

Þetta kemur fram í svörum Vegagerðarinnar í síðustu viku við fyrirspurnum Samgöngufélagsins sem bornar voru fram í byrjun marsmánaðar.

Eigendur Grafar hafa ekki sýnt samningsvilja og hafa ekki svarað tilboði Vegagerðarinnar. Vegagerðin segir að unnið sé af fullum þunga að samningaviðræðum og einnig að því að undirbúa eignarnám.

Meðan ósamið er eða ekki fengin eignarnámsheimild tefst undirbúningur á gerð nýs um 12 km vegar milli Skálaness og nýrrar Þorksafjarðarbrúar, sem styttir leið um ca. 12 km og öll verður á láglendi (þverun Þorskafjarðar styttir leiðna um 9 km). Vegurinn kemur í stað gamals, úrsérgengins og á stundum hættulegs vegar þar sem fara þarf um tvo varasama hálsa 160 og 360 m háa.

Framkvæmdir eru hafnar við þverum Þorskafjarðar og hafin er vinna við að fella skóg í vegstæðinu að undanskildu landinu í eigu Grafar. Gert er ráð fyrir að bjóða út vegtenginguna út í Hallsteinsnes í þessum mánuði. Þá er gert ráð fyrir verklokum 2024.

Eigendur Grafar eru samkvæmt þinglýsingabókum fjórir og eiga þeir 25% hlut hver. Það eru Ósk Jóhanna Guðmundsdóttir, Arndís Ögn Guðmundsdóttir, Kolbrún Pálsdóttir og Guðrún Alda Gísladóttir. Ósk Jóhanna býr á Reykhólum en hinar þrjár i Reykjavík.

DEILA