Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sent bréf til allra sveitarfélaga og farið fram á að þau yfirfari gjaldskrá vatnsveitu sveitarfélagsins með hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins um ákvörðun vatnsgjalds. Sérstaklega er kynnt sú afstaða ráðuneytisins að óheimilt sé að láta vatnsveitu greiða arð í sveitarsjóð. Í leiðbeiningum ráðuneytisins eru skýrðar heimildir til gjaldtöku vatnsveitna, með vatnsgjaldi og að gjaldið sé til þess að standa undir nánar tilgreindum kostnaði og það takmarki innheimt vatnsgjald. Fer ráðuneytið fram á að fá fyrir lok júní niðurstöðu sveitarfélaganna af athuguninni þar sem forsendur fyrir útreikningum á fjárhæð vatnsgjaldsins séu útskýrðar og auk þess að fá upplýsingar um langtímaáætlun vatnsveitunnar.
Leiðbeiningar ráðuneytisins eru ýtarlegar þar sem skýrðar eru lagaheimildir sem varða vatnsveitur, rekstur þeirra og gjaldtökuheimildir. Upphaf málsins er úrskurður ráðuneytisins frá 2019 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið óheimilt að miða vatnsgjald við að greiða arð til borgarsjóðs. Þá er í leiðbeiningunum skýrt nánar hvað felst í því að vatnsgjald er þjónustugjald, þar með talið að skýrt þarf að liggja fyrir hvaða kostnaðarliði má telja fram vatnsgjaldið eigi að standa undir og ekki hvað síst að gjaldið megi ekki vera tekjulind umfram það.
Tekjur vatnsveitunnar tvöfalt hærri en útgjöldin
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur nýlega endurskoðað gjaldskrá sína fyrir vatnsgjaldið og þarf nú að yfirfara hana í samræmi við óskir ráðuneytisins.
Vatnaveita Ísafjarðar var með 106 m.kr. í tekjur 2019 og hagnaður af rekstrinum varð 53 m.kr. eða helmingur teknanna. Skuldir í lok árs 2019 voru engar og bókfærðar eignir 663 m.kr.
Tekjur skiptust í þjónustutekjur 82 m.kr. sölutekjur 20,5 m.kr og aðrar tekjur 4,4 m.kr. Ekki kemur fram hvað vatnsgjaldið er stór hluti teknanna en svonefnd þjónustugjöld fasteigna eru tilgreind í skýringum með 80 m.kr.
Ársreikningur fyrir 2020 hefur ekki verið birtur.