Stofnandi Arctic Fish fékk frumkvöðlaverðaun Sjávarklasans

Forseti Íslands með þeim sem fengu viðurkenningu. Sigurður Pétursson er annar frá vinstri. Mynd: Ingibjörg Valgeirsdóttir.

Vestfirðingurinn Sigurður Pétursson, frumkvöðull og stofnandi fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish, hlaut í gær viðurkenningu Sjávarklasans fyrir ötult frumkvöðlastarf á sviði fiskeldis og fyrir að hvetja til víðtæks samstarfs frumkvöðla og iðnaðar. Sigurður var einn af fyrstu íbúum Húss sjávarklasans og þar hóf hann að þróa hugmynd sína um öflugt fiskeldi á Vestfjörðum. Sigurður hefur jafnframt verið afar hjálplegur við fjölda frumkvöðla sem leitað hafa í hans smiðjur.

Verlaunin voru veitt í tilefni af tíu ára afmælis Íslenska sjávarklasans. Sex einstaklingar sem hafa með einum eða öðrum hætti stuðlað að auknu samstarfi á ýmsum sviðum sem tengjast Íslenska sjávarklasanum fengu viðurkenningu.

Sigurður sagði við Bæjarins besta að hann þakkaði viðurkenninguna samfélaginu á Vestfjörðum og þeim sem tilbúin voru að að fylgja eftir frumkvöðla hugmynd að alvöru atvinnustarfsemi.

Athöfnin fór fram í Húsi sjávarklasans að Grandagarði 16. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar afhenti viðurkenningarnar og forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson ávarpaði gesti.

DEILA