Sterk fjárhagsstaða Orkubús Vestfjarða

Fossárvirkjun. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjárhagsstaða Orkubús Vestfjarða er afar sterk og er eigið fé þess um 6 milljarðar króna. Handbært fé í lok síðasta árs var 1.690 milljónir króna. Eignir eru bókfærðar á 9,3 milljarða króna og skuldir eru 3,4 milljarðar króna. Eigið fé nemur 68% af bókfærðum eignum. Meðal eigna er eignarhlutur OV í Landsneti sem er bókfærður á 353 milljónir króna en hlutdeild félagsins í eigin fé Landsnetshf. nemur 3,0 ma. kr. „Ljóst er að gangvirði eignarhlutar félagsins í Landsnet hf. er umtalsvert hærra en bókfært verð hans“ segir í skýrslu stjórnar OV og Orkubússtjóra.

Ársreikningur Orkubúsins fyrir 2020 var lagður fram á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Tekjur jukust um 7% og námu 3,1 milljarði króna. Hagnaður varð 244 milljónir króna. Stjórn samþykkti að greiða 60 m.kr. arð til eiganda, sem er ríkið. Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður sagði í samtali við Bæjarins besta að fjármálaráðherra hefði annað árið í röð samþykkt að arðurinn yrði ekki greiddur til ríkisins heldur varið til framkvæmda.

Fjárfest var fyrir 726 milljónir króna á síðasta ári sem var að mestu fjármagnað með handbæru fé frá rekstri en það var 692 m.kr.

Laun og tengd gjöld voru nærri milljarður króna og stöðugildin voru 60.

Stjórn félagsins var öll endurkjörin. Stjórnarmenn eru:

Illugi Gunnarsson, formaður Reykjavík
Friðbjörg Matthíasdóttir Bíldudal
Elsa Kristjánsdóttir Reykjavík
Gísli Kristjánsson Ísafirði

Eiríkur Valdimarsson Hólmavík

Varamenn
Ragnheiður Hákonardóttir Ísafirði
Steinþór Bjarni Kristjánsson Flateyri
Magni Hreinn Jónsson Ísafirði
Viktoría Rán Ólafsdóttir Hólmavík
Eysteinn Jónsson Hafnarfirði

DEILA