Tækifæri til bættrar afkomu í sauðfjárrækt

Tækifæri íslenskra sauðfjárbænda til bættrar afkomu liggja í áframhaldandi hagræðingu í búrekstri, hagræðingu í rekstri sláturhúsa og hagkvæmara fyrirkomulagi útflutnings eru helstu niðurstöður skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um um afkomu sauðfjárbænda á Íslandi og leiðir til að bæta hana.

Skýrslan var unnin að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var kynnt í morgun á opnum streymisfundi.

Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um sauðfjárframleiðsluna í landinu, rekstur, sölumál, útflutning, afurðakerfið og stuðningskerfið. Skýrslunni fylgir jafnframt tillaga að aðgerðaáætlun um leiðir til að bæta stöðu greinarinnar. Þá er fjallað um opinberan stuðning við greinina, áhrif hans og þróun stuðningskerfanna undanfarin ár. Enn fremur er umfjöllun um sauðfjárræktina á alþjóðavísu og samanburð þeirrar íslensku við önnur sauðfjárræktarlönd.

Í skýrslunni kemur fram að rekstur íslenskra sauðfjárbúa hafi verið erfiður á undanförnum árum og afkoma bænda léleg. Lækkun afurðaverðs um 40% samtals á árunum 2016–2017 skýrir að mestu þessa stöðu. Í skýrslunni er jafnframt fjallað ítarlega um stöðu sauðfjárræktar á alþjóðavísu og samanburð þeirrar íslensku við hana eftir því sem það er hægt, þann útflutning sem á sér stað og áhrif hans á heimamarkaðinn. Afurðaverð til bænda hérlendis er það næstlægsta í Evrópu.

DEILA