Skútusiglingar – Ísafjörður og Húsavík

Skútan Opal. Mynd: Halla Lúthersdóttir.

Það vakti athygli að sjá skútuna Opal frá Norðursiglingu koma inn til Ísafjarðar á dögunum. Blaðamaður hafði því samband við Arngrím Arnarson, markaðsstjóra Norðursiglingar að forvitnast um ferðina.

Opal er í vikusiglingu frá Húsavík til Reykjavíkur, með viðkomu á ýmsum stöðum, meðal annars Ísafirði. Ferðin er á vegum umhverfisverndarsamtakanna Ocean Missions (https://oceanmissions.org/) í samstarfi við Norðursiglingu. Í ferðinni er 5 manna áhöfn og 10 farþegar og snýst hún um siglingar, fræðslu um umhverfismál og rannsóknir á lífríki sjávar.

Þessar ferðir eru farnar tvisvar á ári að vori og hausti.

Skútan Opal er áhugaverð fyrir ýmislegt, falleg skúta og eina skútan á Íslandi sem er með rafmótor.

Aurora Artika og Teista

Í framhaldinu var haft samband við Ólaf Kolbein Guðmundsson og Ingu Fanney Sigurðardóttir, eigendur Aurora Artika og Teistu sem Ísfirðingar ættu að kannast betur við en Opal. Þau bjóða uppá skútusiglingar á Hornströndum á Auroru og siglingarnámskeið á Teistu.

Aðspurð segir Inga að það bókist mjög vel og mikill áhugi hjá Íslendingum.

Hún segir að bæði séu Íslendingar að uppgötva þennan ferðamöguleika á Hornströndum en þau hafa verið að bjóða uppá hlaupaferðir, skíðaferðir og ýmsa fleiri möguleika. Þau hafa þá sérstöðu að bjóða uppá víðtæka vetrarferðaþjónustu.

Inga segist finna fyrir mikilli vakningu og áhuga á siglingum undanfarin misseri.

Teista

Myndir frá Aurora Arktika.

DEILA