Skálmarnesmúlakirkja

Skálmarnesmúlakirkja Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.

Alkirkja var að Múla undir Skálmarnesi í Reykhólahreppi  í kaþólskri tíð og er hennar fyrst getið í kirknatali Páls Jónssonar. Kirkjan var helguð heilögum Lárentíusi. Prestskyld virðist hafa verið að Skálmarnesmúla að fornu, en ekki er vitað um nema einn prest sem þar sat, Oddleif sem þar var pestur um 1219. Hann er nefndur í Sturlungu. Sóknin hefur því væntanlega fljótlega verið lögð til Flateyjarprestakalls.

Undir Múlakirkju lágu tíundir frá öllum bæjum frá Svínanesi að Litlanesi. Um siðaskiptin átti kirkjan á Skálmarnesmúla hálfan Skálmardal, Selsker, Hamar, Hvítingseyjar, Urðir á Múlahlíð og Eiðshús í Kerlingarfirði.

Ítök kirkjunnar voru aðeins tvö, skógarítak í Selskerjalandi og tolllaust skipsuppsátur í Oddbjarnarskeri og bendir það til þess að kirkjan hafi einhvern tíma átt skip.

Af vefsíðunni kirkjukort.net

DEILA