Seiglurnar sigla til Ísafjarðar 15. júní

29 konum hefur verið boðið að gerast hásetar í Kvennasiglingu 2021 en yfir hundrað konur sóttust eftir að sigla með Seiglunum á skútunni Esju í kringum landið. Yfirskrift siglingarinnar er Hafið er okkar umhverfi.

Kvennasigling 2021 leggur úr Reykjavíkurhöfn þann 13. júní nk. og er markmið siglingarinnar tvíþætt, annars vegar að vekja athygli á umhverfismálum hafsins og hins vegar að hvetja konur til siglinga við Ísland. Konum gafst kostur á að sækja um að sigla með Seiglunum mismunandi hluta leiðarinnar en skútan kemur við í sex þéttbýlisstöðum hringinn í kring um landið.

Í fréttatilkynningu kemur fram að áætlað er að komið verður til Ísafjarðar 15. júní og er það fyrsti viðkomustaður af sex á hringferðinni um landið. Komið verður aftur til Reykjavíkur þann 6. júlí. Siglt verður alls um 1400 sjómúlur og tekur ferðin um þrjár vikur.

Siglt verður á 50 feta skútu hringinn í kring um landið en áhöfnin er eingöngu skipuð konum. Í fastri áhöfn skútunnar eru sex konur með mismikinn bakgrunn í siglingum og þekkingu og reynslu af umhverfismálum. Þær kalla sig Seiglurnar og munu leiða siglinguna umhverfis landið.

Yfir 100 umsóknir bárust um hásetapláss og er því ljóst að fjöldi kvenna sem hefur áhuga á að stíga inn í skútusiglingar af krafti er miklu meiri en þau pláss sem í boði voru. Fjölmargar þeirra sem sóttu um hafa reynslu af siglingum en jafnframt eru margar konur sem ekki hafa haft tækifæri til að sinna þessu áhugamáli jafn mikið og þær óska sér. Hópurinn samanstendur af konum sem vilja stuðla að aukinni umræðu um heilbrigði hafsins

DEILA