Saman getum við næstum allt

Ólík en eins

Við sem búum í Norðvesturkjördæmi og kannski sérstaklega við sem erum í pólitík heyrum og tölum oft um hvað kjördæmið okkar er stórt og hvað landsvæðin innan þess eru ólík.  Eitt svæði treysti mest á sjávarútveg, annað svæði á landbúnað, þriðja á ferðaþjónustu, fjórða á stóriðju og gæti ég haldið áfram að skipta okkur niður, enda erum við mjög ólík og það er enginn vafi á því.  En það þýðir ekki að við getum ekki líka verið mjög lík.  Við erum oft á tímum að berjast fyrir sömu hlutum en alltaf í sitthvoru horninu, við viljum sjá breytinguna á okkar landsvæði fyrst og reynum við því öll að kalla eftir að fá eitthvað en enginn heyrir til okkar.  En hvað ef við hættum að kalla ofan í hvert annað og köllum saman, myndi það kall ná til ríkissjóðs og til framfara?  Gætum við í sameiningu byrjað að krefjast þess að fá sömu grunnþjónustu og grunninnviði og aðrir þótt við fengjum það ekki öll á nákvæmlega sama tíma, en þá myndum við fá það fyrir rest þegar upp væri staðið, í stað þess að vera ennþá að reyna kalla út í tómið.  Því trúi ég, því mun ég stefna að, því samvinna er allt, eða eins og fyrrum samstarfsfélagi minn sagði alltaf „samvinna sama sem og vinna“.

Kennum en lærum ekki sjálf

Okkur er kennt sem börnum af fullorðnum að leika saman, læra saman, keppa saman og sýna hvert öðru virðingu.  Enda eru barnæsku árin hjá flestum þau bestu, svo einföld og erum við oftar en ekki bara sammála um að vera ósammála án þess að átta okkur sjálf á því.  Ekkert barn færi að draga það í efa ef þú tjáðir þig um það að blár væri þinn uppáhaldslitur, að appelsínugulur væri betri því það væri þín skoðun og byrja skítkast sem væri engum til framdráttar. Hvorki börnunum tveim sem voru að leika sér eða andstæðingum í pólitík.  En þegar við eldumst þá er eins og við gleymum þeirri visku sem við bjuggum yfir sem börn, að vera ekki sammála öllu er ekki endilega slæmur hlutur.

En það sést vel á árangri þegar við fullorðna fókið munum eftir samvinnunni og þeim krafti sem honum fylgir.  Við í Sjálfstæðisflokknum erum breiðfylking sem rúmar margar ólíkar skoðanir, við tökumst á og rökræðum en stöndum ávallt saman að grunnstefnu flokksins, náum miklu fram til hagsbóta og erum stærsti flokkurinn á landsvísu.  Rígur á milli Vestfirðinga um hvað ætti að gera fyrst í samgöngumálum minnkaði til muna fyrir nokkru síðan og fór orkan yfir í samstöðu að byrja að láta verkin tala, sem hefur leitt af sér mikla uppbyggingu á innviðum og atvinnulífinu hér á svæðinu undanfarið.  Kvennaliðið hjá Tindastóli í fótbolta vann sinn fyrsta sigur í efstu deild nú á dögunum, og fyrir lítið félag út á landi hefur samvinnan skipt lykilmáli þar.

Og þetta er frábært, og því spyr ég, hví stoppa þarna.  Þetta þarf ekki að einskorðast við flokka, landshluta eða íþróttalið ef við myndum leggja aðeins til hliðar það sem við erum ósammála um og vinna hart að því sem við erum sammála um og ræða hitt á öðrum vettvangi. Ólík skoðun á málefnum landsins þarf ekki að hindra okkur í að standa saman í málefnum sem snerta beint okkar kjördæmi.

     Það er mín framtíðarsýn, að gera hlutina saman sem ein heild, þannig munum við ná að láta allt kjördæmið blómstra og ná öllum þeim sameiginlegu markmiðu okkar sem við stefnum á fyrr, betur og á hagkvæmari hátt.  Við erum ólík eftir landsvæðum í kjördæminu okkar, ég hef sagt það áður og margir aðrir en við eigum líka margt sameiginlegt og við eigum að einblína á það, sjá hverju við getum unnið saman að, hverju getum við stutt hina í og saman náð miklum árangri.  Það er mín framtíðasýn – því saman getum við næstum allt.

Bjarni Pétur Marel Jónasson

Frambjóðandi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi