Nýbygging og miklar endurbætur á hjúkrunarheimilinu á Patreksfirði

Frá Patreksfirði

Á hjúkrunarheimilinu á Patreksfirði er aðstaða fyrir 11 íbúa í fjórum einbýlum, tveimur tvíbýlum og einu þríbýli. Húsnæðið heyrir undir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Það er að stofni til gamalt sjúkrahús sem byggt var árið 1944, auk viðbyggingar frá árinu 1974. Hlutverk þess hefur þróast og breyst í gegnum árin. Nú felst starfsemin einkum í rekstri heilsugæslu- slysa- og bráðamóttöku en sjúkrahússstarfsemin hefur þróast þannig að fyrst og fremst er um hjúkrunarheimilisrekstur að ræða.

Húsnæði hjúkrunarheimilisins ber sögu hússins merki og fellur engan veginn að kröfum nútímans um slíka þjónustu. Brýn þörf er á að bæta aðstöðu íbúa og starfsfólks og breyta tvíbýlum og þríbýlum í einbýli samkvæmt núgildandi viðmiðum um hjúkrunarrými, líkt og nú verður gert.

Nú er fyrirhugað að ráðast í viðbyggingu og endurbætur á húsnæði hjúkrunarheimilisins á Patreksfirði sem mun gjörbreyta aðbúnaði íbúa, bæta starfsumhverfi og færa allar aðstæður á heimilinu til nútímahorfs.

Brýn þörf er á þessum úrbótum með áherslu á að tryggja íbúunum heimilislegt umhverfi og útrýma fjölbýlum. Ráðgert er að hefja verklegar framkvæmdir um mitt næsta ár og taka nýtt og endurbætt hjúkrunarheimili í notkun í lok árs 2024. Verkefnið er í samræmi við framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2025.

Heildarkostnaður framkvæmdarinnar nemur um 523 milljónum króna. Ríkið greiðir 84% byggingakostnaðarins og leggur til lóð undir framkvæmdirnar en sveitarfélagið greiðir 16% kostnaðarins.

Samhliða framkvæmdum við hjúkrunarheimilið mun ríkið ráðast í endurbætur á innri rýmum heilbrigðisstofnunarinnar og byggja nýtt sjúkrabílskýli til að bæta aðkomu sjúkrabíla. Áætlaður kostnaður ríkisins vegna þeirra framkvæmda nemur um 745 milljónum króna.

Sveitarfélagið mun jafnframt byggja um 540 fermetra viðbótarrými á lóð stofnunarinnar fyrir félagsstarf aldraðra og standa straum af þeim kostnaði.

DEILA