Matvælasjóður ætlar að úthluta 630 milljónum

Þetta er í annað sinn sem sjóðurinn auglýsir úthlutun.

Matvælasjóður mun fá 250 milljón króna viðbótarframlag á þessu ári og er heildarúthlutunarfé sjóðsins alls 630 milljónir króna. Hlutverk sjóðsins að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu íslenskra matvæla og hliðarafurða þeirra úr landbúnaðar- og sjávarafurðum á landsvísu.

Sjóðurinn hefur fjóra flokka: 

  • Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkur úr Báru fleytir hugmynd yfir í verkefni.
  • Kelda styrkir rannsóknaverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu.
  • Afurðstyrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar, en leiða af sér afurð.
  • Fjársjóður styrkir sókn á markað. Fjársjóður er samansafn verðmætra hluta og styrkir fyrirtæki til að koma sínum verðmætum á framfæri.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér heimasíðu sjóðsins, www.matvælasjóður.is en þar má finna handbók Matvælasjóðs, upplýsingar um umsóknir og allar nánari upplýsingar um sjóðinn. Í þessari annarri úthlutun hefur verið unnið að því að einfalda og skýra umsóknarferlið, handbók fyrir umsækjendur hefur verið uppfærð og skerpt á áherslum sjóðsins.

Í fyrra úthlutaði sjóðurinn 62 verkefnum styrk samtals að upphæð 480 milljónir. Þá fengu 11 verkefni á Vestfjörðum styrki samtals að upphæð tæpar 90 milljónir eins og fram kom í Bæjarins besta þann 16. desember.

DEILA