Laxeldi í Ísafjarðardjúpi: Matvælastofnun rannsakar málsmeðferð Skipulagsstofnunar

Úthlutun leyfa til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi hefur verið sett í bið meðan Matvælastofnun fer yfir málsmeðferð Skipulagsstofnunar á fyrri stigum umsóknarferilsins.

Matvælastofnun tekur þessa ákvörðun eftir harðorð mótmæli Arnarlax sem krafðist þess formlega með bréfi dags 30. mars að stofnunin rannsakaði málsmeðferð Skipulagsstofnunar við afgreiðslu matsskýrslna vegna sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi og útgáfu lögbundinna álita stofnunarinnar vegna þeirra.

Matvælastofnun auglýsti 9. mars sl tillögu að rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna laxeldi Háafells í Ísafjarðardjúpi. Byggir stofnunin það á því að Skipulagsstofnun gaf fyrst út álit sitt á matsskýrslu Háafells. Við það gerir Arnarlax alvarlegar athugasemdir og segir Skipulagsstofnun ekki hafa afgreitt matsskýrslur um laxeldi í Ísafjarðardjúpi í þeirri röð sem þær bárust heldur gefið út álit á þá matsskýrslu sem síðast barst inn til Skipulagsstofnunar og síðast á skýrslu Arnarlax sem barst fyrst.

Arnarlax fengi ekkert

Röðin skiptir verulegu máli þar sem þau þrjú fyrirtæki sem hafa sótt um leyfi til laxeldis á frjóum laxi í Djúpinu vilja framleiða meira en þau 12.000 tonn árlega sem Hafrannsóknarstofnun lagði til og Sjávarútvegsráðherra staðfesti. Með banni við laxeldi innan línu úr Ögurhólmum í Æðey minnkar burðarþolið í Djúpinu úr 30.000 tonnum í 12.000 tonn.

Arnarlax sækir um 10.000 tonna framleiðsluleyfi, Arctic Sea Farm sækir um 8.000 tonn og Háafell 6.800 tonn. Samtals eru þessar þrjár umsóknir upp á nærri 25.000 tonna framleiðslu. Þau rúmast innan burðarþolsmats fyrir Djúpið, sem er 30.000 tonn , en ekki innan þeirra 12.000 tonna sem verða leyfð. Þá hefur fyrirtækið Hábrún í Hnífsdal einnig áform um eldi í Djúpinu.

Gangi eftir áform Matvælastofnunar mun Háafell fá 6.800 tonna leyfi, þ.e. allt sem fyrirtækið sækir um og Arctic Sea Farm 5.200 tonn og þeim 8.000 tonnum sem sótt er um. Arnarlax mun hins vegar ekkert fá nema þá ef til vill leyfi fyrir eldi á ófrjóum laxi.

Yrði þetta niðurstaðan er ljóst að uppbyggingaráform Arnarlax og Arctic Sea Farm muni breytast og almennt hægjast á uppbyggingunni, en fyrirtækin vinna að staðarvali fyrir sameiginlegt sláturhús. Ekkert hefur komið fram um það hvort Háafell og Arctic Sea Farm muni taka upp samstarf í fjárfestingunni.

Annað hvort væri að fá hnekkt bannlínunni í Djúpinu og geta þá nýtt allt burðarþolið 30.000 tonn eða að sækja aukið burðaþol í Jökulfirðina. Gangi hvorgt eftir er ljóst að úthlutuð leyfi til eldis í Djúpinu verða aðeins tæpur helmingur af því sem sótt er um.

Þeir fyrstu verða síðastir

Rök Arnarlax eru þau að Skipulagsstofnun hafi brotið lög við meðferð málsins. Lögum samkvæmt beri stofnunni að gera lögbundið álit sitt á matsskýrslunni innan fjögurra vikna en hafi ekki gert það fyrr en eftir 27 vikur. Þá hafi Skipulagsstofnun með því einnig brotið gegn grundvallarreglum störnsýsluréttarins um tímaröð erinda. þetta hafi leitt til þess að erindi sem síðar bárust hafi verið afgreidd á undan erindi Arnarlax.

Matsskýrsla Arnarlax var lögð fram 12. ágúst 2020 og álit Skipulagsstofnunar er dagsett 19. febrúar 2021. Arctic Sea Farm lagði sína matsskýrslu fram 7. september 2020 og álit Skipulagsstofnunar er dagsett 29. janúar 2021. Loks kom matsskýrsla Háafells 9. október 2020 og álit Skipulagsstofnunar er dags 22. desember 2020.

Dagsetningar á áliti Skipulagsstofnunar skiptir máli þar sem umsókn um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar er ekki fullnægjandi umsókn fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir segir í bréfinu. Af því leiðir að Matvælastofnun getur ekki tekið við umsókn Arnarlax fyrr en álitið hefur verið gefið út.

Arnarlax segir í bréfi sínu að á Matvælastofnun hvíli rannsóknarskylda vegna útgáfu rekstrarleyfis og vísar þar til úrskurðar Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og dóms Hæstarréttar í öðrum málum og mótmælir því harðlega að Matvælastofnun byggi stjórnvaldsákvarðanir sínar um útgáfu rekstrarleyfa fyrir laxeldi í Djúpinu á „ólögmætri stjórnsýslu Skipulagsstofnunar.“

Í svari Matvælastofnunar við fyrirspurn Bæjarins besta segir að „Matvælastofnun er í vinnu við að meta málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna umsókna í Ísafjarðardjúpi.“

Stofnunin hefur því fallist á kröfu Arnarlax um að rannsaka málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Á meðan það fer fram er málið sett í bið.