Laxasláturhús: Flateyri til skoðunar

Arctic Fish og Arnarlax hafa fram lagt til Ísafjarðarbæjar kynningu um mögulega uppbyggingu sláturhúss á Flateyri og óskað er eftir afstöðu sveitarfélagsins til uppbyggingarinnar innan þriggja vikna. Málið var rætt á fundi bæjarráðs í morgun. Bæjarráð fól bæjarstjóra að taka saman gögn um málið og leggja fyrir bæjarráð á næsta fundi þess.

Daníel Jakobson, formaður bæjarráðs vék af fundi þegar málið var rætt. Marzellíus Sveinbjörnsson, varaformaður bæjarráðs sagði í samtali við Bæjarins besta 30. apríl sl. að hann vildi sjá sjá hvað fiskeldið í Djúpinu „gerir fyrir okkar svæði þ.e.a.s. verður slátrað hér, verður fullvinnsla afurða og margt annað sem skapar atvinnu og tekjur, þetta þarf meðal annars að liggja fyrir.“ Átti hann þar við hvort sláturn færi fram á svæðinu og að afurðirnar yrðu fullunnar. Miðað við þau svör má búast við að bæjarráðið setji skilyrði fyrir lóðaúthlutun til sláturhúss í sveitarfélaginu.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er staðarvalsgreiningu ekki lokið og enn ekki útilokaður neinir kostir sem hafa verið til athugunar, nema að allt bendir til þess a sláturhúsið verði reist á Vestfjörðum. Þar eru Flateyri og Patreksfjörður báðir taldir líklegir til þess að verða fyrir valinu. Það sem m.a. mælir með Flateyri er að Arctic Fish á nokkrar eignir á Flateyri sem myndu nýtast ef sláturhúsið yrði þar. Á móti þarf að ráðast í útbætur bæði í snjóflóðavörnum og á þjóðveginum til Flateyrar og þar þarf að fá svör frá ríkisvaldinu.

DEILA