Náttúrusteinar hafa löngum fylgt manninum til verndar, gæfu eða lækninga. Samkvæmt þjóðtrú hefur helgiblær, viska og vernd verið tengt steinum af ýmsum gerðum. Þeir fegurstu hafa skreytt helgidóma og konungleg djásn en aðrir tengja manneskjuna við náttúruna. Lausnarsteinn er ein tegund náttúrusteina sem áður fyrr var talið búa yfir margvíslegum kyngikrafti.
Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til, má finna tvo slíka steina innan um áhöld til lækninga í tímabilinu 1600-1800, þegar landlæknisembættið er stofnað á Íslandi á átjándu öld.
Lausnarsteinn er ekki steinn heldur fræ, svo kölluð ,,sjávarbaun” (e. Sea heart), trékenndrar vafningsjurtar af belgjurtaætt (e. EntadaScandens) sem vex á hitabeltisslóðum og berst að ströndum Íslands með Golfstraumnum. Steinninn er hjartalaga eða eins og lambsnýra, harður og sléttur, dökkur eða svarbrúnn á lit, mjúkur og ávalur sem fer vel í lófa. Fræbelgurinn getur orðið allt að einum metra en fræin sjálf að hámarki 6 x 5 cm. Lausnarsteinar hafa verið notaðir í skartgripi og silfurslegnar tóbakspontur þar sem þeir eru holir að innan.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því hvernig farið er að því að verða sér út um lausnarstein. Á Vítismessunótt, þann 15. júní, er ráð að múlbinda arnarunga í hreiðri. Assan sækir þá ýmsa náttúrusteina. Ber hún hvern stein undir nef unganna og þegar sá rétti er fundinn leysir hann múlinn af ungunum. Þá þarf að hafa hraðann á til þess að ná steininum áður en assan hverfur aftur með steininn og sekkur honum á fertugt djúp svo enginn hafi not af honum meir.
Í Tímariti hins íslenzka bókmenntafélags frá 1894 er þess getið að þessi sögn tengist eldri sögnum um Óðin og hrafnsteininn sem gegndi einnig því hlutverki að losa um alla fjötra og hjálpa konum í barnsnauð. Talið var að sá sem ætti slíkan stein hefði selt kölska sál sína og gæti riðið „loptförum líkt og valkyrjur, fordæður og seiðkerlingar.“
Í spurningaskrá þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins, merktri 1963-2 Barnið; fæðing og fyrsta ár, má finna ýmsan fróðleik um notkun lausnarsteina í alþýðumenningu Íslendinga. Ljósmæður eða yfirsetukonur töldu steininn nytsamlegan til þess að aðstoða konur við fæðingu með því að leggja hann á brjóst konunnar. Margar aðrar aðferðir eru tilgreindar svo sem að hita steininn og leggja á maga fæðandi konu, leggja hann í bleyti í frönsku hvítvíni sem konan saup á, gera af honum seyði eða skafa af steininum út í volgt vatn til drykkjar. Ef fæðing gekk illa var steinninn lagður undir koddann eða upp við vinstra læri konunnar. Til þess að slaka á grindarbotninum var steininum stungið undir tungu konunnar eða í lófann til þess að kreista. Í frásögnunum voru lausnarsteinar á heimilum fólks nokkurs konar erfðagripir sem gengu á milli kynslóða kvenna. Ekki var alltaf vitað hvort þeir hefðu verið notaðir en talið gott að vita af þeim nálægum á heimilinu eða í tösku ljósmóðurinnar.
Lausnarsteinar og töframáttur þeirra eru ef til vill hindurvitni í hugum margra. Ljósmóðirin Hildur Kristjánsdóttir, þá formaður Norðurlandasamtaka ljósmæðra, (NJF), gaf norska ljósmæðrafélaginu á 100 ára afmæli þeirra, lausnarstein, útskorinn úr birki sem tákn um hvað ljósmóðurhlutverkið stendur fyrir og sameiginlegan Norrænan arf. Mikil gæfa fyrir ljósmóður þótti að eiga lausnarstein, þó svo frásagnir af þeim væru mismunandi milli landa. Fyrsta fræðibókin sem gefin var út hér á landi um ljósmóðurfræðin og ljósmóðurlist var nefnd Lausnarsteinar. Þar er vísað til sérstöðu ljósmóðurfræðinnar og þeirrar þekkingar sem býr í reynslusögum ljósmæðra. Það má því segja að hinn sameiginlegi arfur alþýðumenningarinnar sé enn lifandi þar sem sótt er í hulda náttúrukrafta meðfram gagnreyndri vísindalegri þekkingu.
Anna Þorbjörg Toher
Af vefsíðu Þjóðminjasafns