Jónas Þór: ekkert eldi í Jökulfjörðum á næstu árum

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ segir aðspurður um afstöðu sína til fiskeldis í Jökulfjörðum að hann vilji forðast að slá hluti útaf borðinu án rannsókna.

„Staðan er hins vegar þannig í dag eldi á Jökulfjörðum rúmast ekki innan gildandi áhættumats.  Á næstu árum munu fyrirtækin eiga fullt í fangi með að byggja upp eldi í Djúpinu miðað við gildandi áhættumat.  Eins og staðan er í dag vil ég ekki taka neina afstöðu til þess hvað gert verður á Jökulfjörðum í framtíðinni en það verður í mínum huga ekkert eldi þar á næstu árum.“

Sif Huld Albertsdóttir, einnig bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að hún standi á bak við bókun bæjarráðs síðan 2016, þar sem skorað er á ráðherra að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum, a.m.k. þar til nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði liggi fyrir. „Þannig tel ég mikilvægt að horft verði á að nýtingaráætlun liggi fyrir sem og ferlið verði gert í samráði við alla viðeigandi aðila.“

Kristján Kristjánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur ekki svarað ítrekaðri fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu hans til eldisins í Jökulfjörðum.

DEILA