Ísafjörður: umsókn um hænsnahald tekin fyrir í næstu viku

Hænurnar sem áformað er að halda á Ísafirði eru landnámshænur frá Svansvík eins og þessar sem eru frá Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Mynd: Bændablaðið.

Umsókn Vals Brynjars Andersen, Ísafirði um hænsnahald verður tekin fyrir hjá Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar í næstu viku. Nefndin hafði áður frestað afgreiðslu erindisins með þeirri skýringu að unnið væri að breytingum á samþykkt um búfjárhald.

Bæjarins besta sendi fyrirspurn til bæjarins um þessa afgreiðslu og óskaði skýringa á því að erindið hefði ekki verið afgreitt þar sem umsóknin virtist uppfylla skilyrði samþykktarinnar, og að samþykktin væri í gildi þrátt fyrir að endurskoðun stæði yfir.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gær upplýsti formaður nefndarinnar, Nanný Arna Guðmundsdóttir að málið verður tekið til afgreiðslu á ný á næsta fundi nefndarinnar, sem er á þriðjudag. Það hafi verið misskilningur hjá nefndinni að hægt væri að fresta afgreiðslu þar til nýjar reglur væru birtar.

Þær breytingar sem eru í athugun lúta ekki að reglum um hænsnahald.

DEILA