Ísafjarðarbær: jók afsláttinn um 10%

Rækjuverksmiðjan Kampi er stærsti notandi kalda vatnsins á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn leiðréttingu á gjaldskrá vatnsveitu fyrir stórnotendur sem umhverfis- og framkvæmdanefnd bæjarins lagði til. Á fundinum lagði Daníel Jakobsson til breytingartillögu um að auka stórnotendaafsláttinn um 10% í hverju notkunarþrepi þannig að afslátturinn verði á bilinu 20%-60%, í stað 10%-50%. Tillaga Daníels var samþykkt með átta samhljóða atkvæðum.

Nýja gjaldskráin er þannig að af fyrstu 12.500 rúmmetrunum í hverjum mánuði greiðist 48 kr fyrir hvern rúmmetra. Af næstu 8.340 rúmmetrum er 20% afsláttur af hverjum rúmmetra. Af næstu 8.360 rúmmetrum er 30% afsláttur og svo af næsta þrepi 40%. Þá kemur 50% afsláttur fyrir notkun frá 37.501 rúmmetra að 45.840 rúmmetrum á mánuði. Loks er 60% afsláttur af notkun yfir 45.841 rúmmetra.

Í síðustu viku sagði Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs við Bæjarins besta að hann vissi ekki til þess að viðræður stæðu yfir við Kampa um frekari afslátt af vatnsgjaldi en nýja gjaldskráin ætti að henta stórnotendum eins og Kampa betur.

DEILA