Lagt var af stað í árlegan vorleiðangur Hafrannsóknastofnunar þann 17. maí á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni.
Leiðangurinn er liður í langtímavöktun á ástandi sjávar, næringarefnum, gróðri og átu á hafsvæðinu við Ísland. Ársferðisrannsóknir á þessu sviði hafa farið fram maí/júní í um 60 ár.
Ásamt því að kanna ástandið á föstum sniðum útfrá landinu eru gerðar mælingar með síritandi mælitækjum á siglingaleið skipsins.
Magn og útbreiðsla ljósátu er mæld með bergmálstækni og samliða því eru ljósátusýni skoðuð. Að auki verður safnað sýnum fyrir Geislavarnir ríkisins vegna vöktunar á magni geislavirkra efna í sjó.
Einnig verða sett í sjóinn rekdufl, sem mæla umhverfisþætti, fyrir erlenda samstarfsaðila.
Áætlað er að leiðangurinn vari í 15 daga og fylgjast má með gangi hans á https://skip.hafro.is/