Hættulegur hrað-ofsaakstur á Bíldudal !

Úlfar B. Thoroddsen, fyrrv bæjarstjóri á Patreksfirði sendi fyrir tæpu ári bréf til bæjaryfirvalda, Vegagerðarinnar og lögreglurnnar á Vestfjörðum og vakti athygli á hraðakstri og burtmokaðri hraðahindrun við þorpsmörkin á Bíldudal. Úlfar segir að nú tæpi ári síðar hafi ekkert breyst.

„Sami hraðinn og sérstaklega milli kl. 5- og 7 á morgnana. Of seint starfsfólk að mæta í vinnu og annað þreytt eftir vaktir að fara í svefnstað. Allir ábyrgðaraðilar  virðast sofandi eða burtkallaðir úr þessum heimi eða slétt sama um stöðuna. Væri ekki ráð meðan viðkomandi yfirvöld eru að vakna að einhvert þeirra hafi sambandi við Arnarlax, Kalkið og aðra að brýna góða umferðarsiði fyrir starfsfólki sínu. Og svo taki fullvöknuð yfirvöld á málinu með vinundandi hætti.“

Bréfið er svohljóðandi:

Með efni þessa bréfs er vakin athygli viðkomandi (neðangreindra) stofnana og yfirvalda á þeim ótrúlega og hættulega hraðakstri sem, því miður, of margir ökumenn leyfa sér að stunda í innsta hluta þorpsins á Bíldudal. Hraðakstursleiðirnar liggja um vegamótin og vegarspottann að brúnni við Bíldudalsá og vegarkaflann út frá Bíldudal og inn á dalinn. Hraðaksturinn byrjar og endar við fjölbýlishúsin innst í bænum. Gerist það þrátt fyrir merkingar um hámarkshraða 35 km og hraðamæli sem sínir hraða ökutækja. Gagnslaus hraðahindrun, sem hefur verið rutt burt að hálfu, missir að mestu notagildið. Þessi hraðakstur á sér stað allan sólarhringinn.

Sjónarvottur.

Ritari þessa bréfs hefur horft upp á þann hrað- og oft ofsakstur sem vikið er að flestar stundir hvern einasta sólarhring allan nýliðinn maímánuð og fyrstu 10 daganaí júní í tengslum við vörslu æðarvarps fyrir botni Bíldudalsvogs og reyndar fimm vorin þar á undan. Þetta aksturslag eða þessi hraðakstur um tilgreinda vegarkafla hefur farið vaxandi síðustu þrjú vorin.

Fólk á göngu og hjólandi.

Á þessum vegarhlutum, sem um ræðir, er fjöldi fólks, fullornir, unglingar og börn, gjarnan á göngu eða hjólandi. Ekki er um aðrar leiðir að ræða út úr þorpinu um víkurbotninn eða inn á dalinn. Þeir, sem eru gangandi eða hjólandi, verða að halda sig á veginum því ekki eru göngu- eða hjólabrautir til að bregða sér út á til að forðast bílaumferðina. Þeir, sem eru á göngu þarna, geta því verið í mikilli hættu vegna þess ofsaaksturs sem þarna er stundaður.

Fuglalífi ógnað.

Fjölskrúðugt fuglalíf er á svæðinu um vor-og  sumartímann þar sem hinn ólöglegi  og eftirlitslausi hraðakstur er iðkaður allan sólarhringinn. Fuglarnir leita mikið upp á slitlagið og halda sig gjarnan þar meðan þeim er vært. Á það bæði við um fullvaxna fugla og unga. Hugsandi og velmeinandi ökumenn taka fyllsta tillit til þessa og virða. Hinir, svörtu sauðirnir eða ökufantarnir,  skeyta ekki um líf fuglanna (sem eru friðaðir sk. lögum) og drepa fjölda þeirra sumarlangt. Nú eru drápin byrjuð þegar þetta er ritað. Enginn er samt kallaður til ábyrgðar enda eftirlitið ekkert. Það yrði uppi „fótur og fit“ ef einhver færi um með skotvopn og sallaði fuglana niður líkt og ökuþóranir. Ekki myndi standa á kærum og væntanlega myndi lögreglan ekki linna látum fyrr en viðkomandi yrði fangaður og sviptur skotvopni og leyfi, kærður og sektaður.

Mislánaðar úrbætur.

Einhver umræða varð um ofmikinn hraða bíla í innsta hluta þorpsins fyrir um tveimur árum og leitast var við að draga úr hraðanum með merkingum og nánast gagnslausri þverhindrun eða hafti. Segja má að þær aðgerðir hafi verið líkar því „ að skvetta vatni á gæs“ eða talist „hreinn brandari“ eins og sagt er, þegar aðgerð ber ekki árangur. Síðan hefur ekkert gerst. Lögreglan sést ekki við mælingar á þessum slóðum, enginn áminntur, enginn sektaður. Hraðinn aðeins vex og vex. Enginn virðist hafa nokkuð um þetta að segja eða ekki er hlustað á umkvartanir. Kemur það verulega á óvart að sveitarstjórnarfólk og almenningssamtök á Bíldudal skuli ekki láta í sér heyra opinberlega í þessum efnum og beita sér fyrir tafarlausum úrbótum. Þeirra er valdið og þeirra eru áhrifin!

Úrlausn til frambúðar.

Á þessu þarf að taka án tafar með viðeigandi aðgerðum enda mannslíf hugsanlega  í húfi. Aðgerðum sem drepa niður hraðann á þessum vegarköflum en ekki einhverjum gagnslausum „handarbaka“ úrlausnum sem nú er stuðst við. Það þarf ekki hálærða sérfræðinga í umferðarmálum til að rýna í stöðuna og leggja til lausnir. Það nægir að leggja þverhindranir 5- 10 talsins eða fleiri, vel háar og varanlegar, á leggina þrjá frá vegamótunum innan við þorpið. Þá má setja upp myndavélar til að sýna og skrá alla umferð um svæðið. Ef þessar tillögur þykja ekki boðlegar, geta sérfræðingar spreytt sig á einhverjum þýðari en jafn öflugum og/eða áhrifaríkari lausnum til verndar fólki og fuglum.  

Úrlausnin á að lúta að bestu mögulegri vernd fólks og fugla með styrkri stjórn á umferðinni.

Bréfritari leyfir sér að vona að viðkomandi opinberir aðilar bregðist við strax og beri ekki fyrir sig tafir vegna sumarfría.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur væntanlega forgöngu í þessu máli og kallar viðkomandi aðila saman.

                                                                       Patreksfirði 24. júní 2020

Með allri vinsemd,

                                               Úlfar B Thoroddsen

DEILA