Fréttabréf úr Skjaldfannardal: Hvítasunnugarri

Indriði á Skjaldfönn segir í fréttabréfi frá köldu tíðarfari og sauðburði. Víkur svo að frammistöðu sveitarstjórnar í grenjavinnslu og þykir oddvitinn frekar svifaseinn. Eins og vera ber hefst fréttabréfið á vísu og því lýkur líka með vísu.

Riðst hann áfram ruddahvass.

Rauðar varla tölur dags.

Sagt er þó að sumartíð

sé í vændum, undurblíð.

Nokkuð hefur rignt og farið að slá í gróskumestu tún, enda verið frostlaust síðustu fjórar nætur. Sauðburður á lokametrunum, lambahöld óvenju góð og frændur mínir Jói Alla og Arnar Guðjóns hafa borið hitann og þungan af næturvöktunum, sótt inn einn og jafnvel tvo framfætur og deila nú um það, seint og snemma hvor hafi bjargað fleiri lambslífum. Mjög efnilegir fæðingarlæknar. Villi Grétar, systursonur, tannlæknir og heljarmenni að burðum, bjargaði risastóru lambgimbrarlambi sem var að kafna í burðarliðnum í gærkveldi með því að toga út framfótinn, sem allt áframhald stoppaði, annars hefði lambið verið farið forgörðum nokkrum sekúndum síðar. Allt að gerast í sveitinni, nema ekkert heyrist frá okkar ástkæra oddvita, Jóni Gísla Jónssyni um grenjaskyttumálin, þrátt fyrir mánaðar stöðugar eftirgrenslanir. Skilvirk og markviss stjórnsýsla á þeim bæ, eftir að Þorgeir sveitarstjóri var látinn taka pokann sinn. Lifi spillingin í Strandabyggð.

Gömul vísa um svifaseinan framámann á hér vel við.

Jón minn liggur lengi á.

Leiðast mundi kríu

að vera að unga út eggjum frá

áttatíu og níu.

DEILA