Framsókn reynir að fljúga með stolnum fjöðrum

Stundum er sagt í hálfkæringi að það fyrsta sem hverfi í aðdraganda kosninga séu staðreyndir. Þetta rifjaðist upp þegar á dögunum þegar Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kynnti um síðustu styrktarsamninga Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli.

Síðar á þessu ári og því næsta lýkur því átakinu. Hafa þá 57 sveitarfélög hlotið styrki til tengingar á  6.200 stöðum frá því  að verkefnið hófst árið 2016. Að auki hafa sveitarfélög og íbúar hinna dreifðu byggða komið að fjármögnun verkefnisins. Á einungis 5 árum hefur átakið fært dreifbýli á Íslandi frá því að vera með afleita nettengingu í tengingu eins og þær gerast bestar. Að auki stóðst verkefnið áætlanir um kostnað og tíma þrátt fyrir að umfangið hafi orðið 60% meira en áætlað var í upphafi. Því miður eru það ekki algengar fréttir í opinberum framkvæmdum.

Stórstígar framfarir

Þrátt fyrir að verkefninu sé ekki að fullu lokið er þegar komið í ljós hversu stórstígar framfarir verða með þessu átaki í hinum dreifðu byggðum. Allir þekkja reynsluna úr Covid-19 faraldrinum þegar fólk gat tekið vinnuna með sér heim án fyrirvara. Í rannsókn sem Vífill Karlsson hagfræðingur hefur nýverið birt koma fram fjölmargir jákvæðir þættir í kjölfar ljóðleiðaravæðingarinnar og má þarf nefna meira atvinnuöryggi,  hærri launatekjur,  meira atvinnuúrval, hagfelldara vistspor, bætt aðgengi að menntun og menningu og umfram allt hefur byggðafesta aukist á þeim svæðum sem styrkjanna hafa notið. Allt eru þetta atriði sem fáir hefðu talið sig geta séð gerast fyrir örfáum árum síðan.

Staðreyndir sögunnar

Eins og áður sagði hófst verkefnið árið 2016 í ráðherratíð Ólafar Nordal en undirbúningur 2014 í tíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í innanríkisráðuneytinu. Ólöf fól Haraldi Benediktssyni að stjórna verkefninu fyrir hönd stjórnvalda og hefur hann leyst það afar vel af hendi og tekist að skapa pólitíska sátt um það þannig að mikill sómi  er að. Hann hefur jafnframt viðrað hugmyndir um hvort hægt sé að nýta verklagið við ljósleiðaravæðinguna í átak til, fleiri verkefna eins og lækkunar húshitunarkostnaðar í dreifbýli og lagningu tengivega. Vonandi verða þær hugmyndir að veruleika auk þess sem einnig verði ráðist í sambærilegt átak  við ljósleiðaravæðingar smærri þéttbýlisstaða.

Stolnar fjaðrir

Hér hafa verið nefndar staðreyndir í sögu þessa átaks. Á kynningarfundi Sigurðar Inga sem nefndur var í upphafi þessarar greinar taldi hann sig hins vegar upphafsmann átaksins. Það staðfestir sem fyrr var nefnt að  reynt sé að breyta staðreyndum í aðdraganda kosninga. Sigurður Ingi og Framsóknarmenn munu hvorki skreyta sig né fljúga langt á stolnum fjöðrum þessa máls. Svo vel þekkja menn forsögu þess.

Halldór Jónsson

Höfundur er áhugamaður um byggð í landinu öllu.

DEILA