Bolungavík: halli á rekstri sveitarfélagsins 116 m.kr. Skuldir 112% af tekjum.

Bæjarstjórn Bolungavíkur hefur afgreitt ársreikning síðasta árs fyrir kaupstaðinn. Töluverður halli varð af rekstri A hluta eða 116 m.kr. í stað afgangs 19 m.kr. sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Skatttekjur urðu 1.197 m.kr. og voru 30 m.kr. undir áætlun. Heildartekjur samstæðunnar urðu 1.363 m.kr. og voru 65 m.kr. undir áætlun sem gerir 5%. Meiri frávik voru í útgjöldum þar sem þau urðu um 100 m.kr. hærri en fjárhagsáætlun. Þar munar mestu um 53 m.kr. framlag til B hluta sem ekki var gert ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða A hluta varð neikvæð um 116 m.kr. í stað 19 m.kr. afgangs sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Fyrir samstæðuna varð niðurstaðan neikvæð um 88 m.kr. en gert var ráð fyrir 3 m.kr. afgangi.

Stærsti útgjaldaliðurinn var laun og tengd gjöld. Þau voru 769 m.kr. hjá A og B hluta samanlagt og stöðugildin voru 78.

Skuldir A hluta voru um áramótin 1.665 m.kr. og 2.280 m.kr. hjá samstæðunni allri. Skuldir pr íbúa voru fyrir A hluta 1.737 m.kr. sem er um 4% hærra en hjá Ísafjarðarbæ og fyrir samstæðuna eru skuldir pr mann 2,4 m.kr.

Veltufé samstæðunnar var um áramótin 185 m.kr og skammtímaskuldir 405 m.kr. Veltufjárhlutfallið var 0,45.

Búið að skera niður í rekstri

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að gripið hefði verið til niðurskurðar í rekstrinum fyrir síðustu áramót um 70 m.kr. og hann sagðist gera ráð fyrir góðu rekstrarári 2021. Sveitarfélagið væri að ganga í gegnum tímabundna kreppu sem brugðist hefi verið við. Gripið hefði verið til erfiðra aðgerða til þess að lækka rekstrarkostnað sem snerti m.a. Félagsheimilið, Ósvör og Náttúrugripasafnið.

Helsti vandinn væru launahækkanir og ákvæði kjarasamninga um vinnutímastyttingu. Þessi atriði valda öllu sveitarstjórnarstiginu erfiðleikum sagði Jón Páll. Hann sagðist hafa áhyggjur af langtímaáhrifum af þessari kreppu. Fyrirsjáanlegt er að sveitarfélögin munu skera niður í verkefnum sem ekki eru lögbundin, svo sem menningarmálum og markaðsmálum. Langvarandi niðurskurður í slíkum málaflokkum mun hins vegar hafa veruleg áhrif á búsetugæðin fyrir íbúana.

DEILA