Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem sæti á í samráðshópi um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum segir að hann hafi ekki séð athugasemdir Orkubús Vestfjarða fyrr en í síðustu viku. Athugasemdirnar eru dagsettar 31.12. 2020.
Birgir segir að athugasemdirnar séu málefnalegar og skýrar og „get ég fullyrt að tekið verður tillit til þeirra og skilmálum breytt með hliðsjón af þeim.“
Hann segir að friðlýsingarskilmálar varðandi áform um Þjóðgarð á svæði Dynjanda séu í 3ja mánaða umsagnarferli en því ferli lýkur núna 26. maí n.k. „Það er því afar mikilvægt að allar ábendingar eða athugasemdir komi upp á yfirborðið fyrir þann tíma.“ segir Birgir.
Bæjarins besta hefur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að fá afrit af innsendum umsögnum um þjóðgarð á Vestfjörðum. Beðið er svara.
Auk Birgis Gunnarssonar er Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar í samráðshópnum sem fulltrúi Vesturbyggðar. Hún var líkt og Birgir innt eftir því hvort samráðsnefndin hafi ekki rætt athugasemdir Orkubús Vestfjarða við fyrirhugaðan þjóðgarð og hvernig við þeim verður brugðist. Svör hennar hafa ekki borist enn.