Arnarlax fékk fyrirtækið PwC til að gera úttekt á hve miklu fyrirtækið skilaði til samfélagsins á árinu 2020.
Um er að ræða samantekt sem veitir upplýsingar um það hvaða skatta og gjöld fyrirtækið greiðir. Jafnframt eru settar fram aðrar upplýsingar sem talið er að auki skilning á þeim virðisauka sem fyrirtækið skapar með rekstri sínum.
Framlag Arnarlax til samfélagsins er með ýmsum hætti, meðal annars með greiðslu launa og tengdra gjalda, aðkeyptri þjónustu, vörukaupum, greiðslu fjármagnsgjalda, styrkjum, auk greiðslu skatta og gjalda til yfirvalda.
Meðalfjöldi starfsmanna Arnarlax var 119 á árinu 2020 og þar af voru 102 starfsmenn búsettir í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var meðaltal áætlaðs vinnuafls í þessum sveitarfélögum um 733 á árinu 2020. Um 14% af áætluðu vinnuafli sveitarfélaganna tveggja starfaði hjá Arnarlaxi á árinu 2020. Að auki starfa margir íbúar við afleidd störf sem skapast hafa vegna reksturs Arnarlax.
Skattar og gjöld Arnarlax til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða námu samtals 765 millj. kr. á árinu. Greiðslur til ríkis og sveitarfélaga voru 786 millj. kr. og hækkuðu um 22% milli áranna 2019 og 2020. Hækkunin fólst m.a. í hækkun skatta og gjalda vegna launagreiðslna, hækkun á gjaldi í umhverfissjóð og nýju auðlindagjaldi.