Aflagjald af eldisfiski: Vesturbyggð ekki tilbúið með gögnin fyrir dómi

Vesturbyggð hefur höfðað mál á hendur Arnarlax vegna ógreidds aflagjalds. Sveitarfélagaið hækkaði gjaldið úr 0,6% í 0,7% af verðmæti. Bæði Arnarlax og Arctic Fish mótmæltu hækkuninni. Arnarlax neitaði að greiða hækkunina en Arctiv Fish hefur greitt hana með fyrirvara um lögmæti hennar.

Vesturbyggð höfðaði mál á hendur Arnarlax vegna ógreidda hluta gjaldsins og Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri skýrði sjónarmið sveitarfélagsins í aðsendri grein á Bæjarins besta þann 17.mars sl. Þar kemur fram að sveitarfélagið hafi þurft að fjármagna útgjöld hafnarinnar við rekstur með lántökum og að sjónarmið þess er að gjöldin standi undir rekstri hafnarinnar.

Málflutningi fyrir Héraðsdómi Vestjarða hefur verið frestað að ósk Vesturbyggðar , sem telur sig þurfa frekari tíma til að afla gagna.

Kristín Edwald lögmaður Arnarlax segir að sjónarmið fyrirtækisins sé að aflagjald sé ekki skattur heldur gjald sem eigi að standa undir tilgreindum útgjöldum og að ekki séu rök fyrir gjaldskrárhækkuninni. Aflagjaldið sem innheimt hafi verið standi undir þeim útgjöldum sem af fiskeldinu stafa.