Á forsendum byggðanna

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fer fram dagana 16. og 19. júní næstkomandi þar sem ég gef kost á mér í 2. sæti listans.

Á þingferli mínum kjörtímabilið 2016 til 2017, og sem 1. varaþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili, hef ég verið svo lánsamur að vinna með fjölda fólks um allt kjördæmið að góðum málum og fagnað með því ýmsum merkum áföngum. En róðurinn hefur líka víða verið þungur. Óskir um margvíslegar úrbætur eru skiljanlegar og réttmætar.

Heimsfaraldur hefur ennfremur sett strik í reikninginn og snúið öllu á hvolf í lífi okkar allra. Þótt erfiðleikar fólks, kostnaður hins opinbera og efnahagslega tjónið af völdum sóttarinnar verði aldrei að fullu fært til bókar blasir við að taka þarf hraustlega til hendinni og sækja fram nú þegar hillir undir að lokið verði við bólusetningar og samfélagslegum takmörkunum lyft samhliða.

Uppspretta tækifæranna

Kosningarnar í haust verða að snúast um hvernig við aukum lífsgæði og búum til meiri verðmæti þannig hægt sé að treysta afkomu fólks, fjölga atvinnutækifærum í byggðum landsins og laða til þeirra ungar fjölskyldur á ný.

Leggja verður meiri áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu til sjávar og sveita, nýsköpun í matvælaframleiðslu og iðnaði, aukna samkeppnishæfni með hófstilltari álögum, minni ríkisafskiptum og skilvirkara regluverki sem og kröftugri fjárfestingum í samfélagslegum innviðum.

Þetta verður að gerast á forsendum byggðanna.  Þær þurfa að fá notið sérstöðu sinnar og nálægðar við uppsprettu margvíslegra tækifæra. Má þar nefna vistvænt fiskeldi, hagnýtingu grænnar orku, hreinleika landbúnaðarafurða, hágæða ferðaþjónustu og framþróun í sjávarútvegi. Hér skiptir máli að lögð sé áhersla á framþróun með nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi að leiðarljósi ásamt hagfellda lagaumgjörð fyrir lítil fyrirtæki að vaxa og dafna.

Þessu samfara er mikilvægt að tryggja enn betur aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sér í lagi með tilliti til þarfa barnafjölskyldna og aldraðra, jafnrétti til náms og nægilegt framboð húsnæðis svo tæpt sé á brýnum hagsmunamálum. Það er nefnilega deginum ljósara að uppbyggingu velferðarkerfisins er hvergi nærri lokið í hinum dreifðari byggðum. 

Úr viðjum miðstýringar

Kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins er og verður áfram að einstaklingurinn hafi fjárhagslegt og félagslegt frelsi til að vaxa og dafna á sínum forsendum án íþyngjandi afskipta ríkisvaldsins með sína fjarlægu, miðstýrðu og svifaseinu stjórnsýslu. 

Umfangsmikil miðstýring hins opinbera er ávísun á sóun, stöðnun og óboðlega þjónustu við landsmenn. Nærtækt er að líta til hvernig ótíð og náttúruhamfarir síðustu misserin hafa dregið fram með augljósum hætti þörfina á mun betri og skjótvirkari þjónustu opinberra aðila heima í héraði nær fólki.

Einn lærdómur af heimsfaraldrinum er skýr – Margvísleg störf er í auknum mæli hægt að inna af hendi óháð staðsetningu og í því felast fjölmörg tækifæri fyrir fólk að vinna sín störf þar sem það kýs að búa en ekki hvar það verður að sækja vinnu. Hin miðlæga stjórnsýsla og þjónusta í Reykjavík verður að bregðast við þeim nýja veruleika og sveitarfélög og fyrirtæki víða um land að nýta þau sóknarfæri.

Aflvaki breytinga

Fáu er hægt að kippa í liðinn á einni nóttu í kerfum ríkisins. En með þrautseigju finnast lausnir og með samhentu átaki næst árangur. Þennan kraft, sem þarf til breytinga, er að finna í Sjálfstæðisflokknum um allt kjördæmið og ég veit að á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar verður hægt að stíga stór skref til framfara og bæta lífskjör í okkar samfélagi.

Prófkjörið í júní markar öðrum þræði upphaf kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins og er kjörinn vettvangur fyrir sjálfstæðisfólk í Norðvesturkjördæmi til að segja sína skoðun á frambjóðendum og áherslumálum flokksins. Ég er reiðubúinn og fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnin framundan og óska eftir stuðningi sjálfstæðisfólks til þess.

Teitur Björn Einarsson

Höfundur er varaþingmaður og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA